Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:20]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hann segir hér að hann styðji hugmyndafræðina um að lögleiða fíkniefni. Það er töluvert annað. Þá erum við að heimila innflutning á fíkniefnum. Þá erum við að heimila sölu á fíkniefnum og dreifingu þar sem um er að ræða vímuefni rétt eins og áfengi, sem megi þá bara flytja inn, selja og dreifa. En rök hans gegn þessu máli sem við fjöllum um hér í dag, að afglæpavæða neysluskammta eingöngu, eru að með því aukist sá fjöldi sem noti ólögleg fíkniefni eða vímuefni. Ég fæ þetta ekki alveg til að falla saman. Telur hv. þingmaður að með því að lögleiða þetta að fullu — sem getur verið rétt, ég er ekki að segja að það sé ómöguleg hugmynd — muni eftirspurnin ekki aukast og ekki fjölga í neytendahópnum?