Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:23]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég kann að meta ástríðuna sem hv. þingmaður hefur fyrir þessum málaflokki og ég deili þeirri ástríðu þótt að við séum ekki alveg á sama stað. Það sem ég skil ekki er að mér finnst við vera alveg á svipuðum slóðum en helsti munurinn sem ég sé er að hv. þingmaður virðist algerlega sannfærður um að fólki með fíknivanda muni fjölga gríðarlega mikið við það að hætta að refsa fólki. Það er það sem afglæpavæðingin snýst um, afglæpavæðing vörslu neysluskammta. Það er bara tæknilegt orðalag yfir: Hættum að refsa fólki sem notar vímuefni.

Mig langar því að spyrja: Á hverju byggir hv. þingmaður skoðun sína, þessa sannfæringu sína? Er eitthvað annað en brjóstvit sem er þarna að baki? Þetta er algerlega á skjön við öll þau gögn og allar þær upplýsingar sem við höfum um reynslu annarra landa við að afglæpavæða, við það að hætta að refsa fólki. Þetta rímar ekki saman. Mig langar til þess að spyrja: Hvaðan hefur hv. þingmaður þessar upplýsingar? Ég myndi vilja fá þær af því að allar þær upplýsingar sem ég hef skoðað sýna að fólki með fíknivanda fjölgar ekki og ef eitthvað þá hefur þetta jákvæð áhrif og er að draga úr vímuefnavanda. Mig langar líka til að spyrja: Ef við höldum áfram að refsa, höldum áfram núverandi refsistefnu, hvernig telur hv. þingmaður að það aðstoði þetta fólk sem hv. þingmanni er augljóslega annt um, þ.e. fólk sem á við fíknivanda að stríða? Hvernig aðstoðar það það og hvernig kemur það í veg fyrir að fólk noti vímuefni sem á ekki við fíknivanda að stríða ef við erum að refsa því í kerfinu, jaðarsetja það og stimpla sem glæpamenn? Hvernig er það aðstoð við þennan hóp?