Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:30]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að þakka Tómasi A. Tómassyni fyrir sína ræðu. Mig langar aðeins að spá í þetta út frá því sem hann talaði um, hann talaði um grasreykingar, að fólk líti ekki á það sem ólöglegt og annaðhvort prufir þú að reykja gras og þú viljir reykja gras eða ekki eða færð þér bara áfengi í staðinn eða hvernig sem það er. Þá erum við að gleyma svolítið skömminni sem kemur hjá fólki sem notar fíkniefni eða eitthvað sem er ólöglegt og því getur verið refsað fyrir. Eftir að hafa unnið með unglingum sem hafa mikið verið í neyslu og alls konar þá veit ég að þau hafa upplifað mikla skömm fyrir það að bregðast, fyrir það að gera eitthvað, fyrir að lenda í lögregluafskiptum, öll skömmin í kringum þetta, að vera refsað, vera settur út á jaðarinn sem kannski 14, 15 ára gamall strákur. Þú átt allt lífið fram undan en upplifir kannski að lífið sé búið vegna þess að lögreglan hefur haft afskipti af þér og þú ert búinn að bregðast fjölskyldunni. Skömmin er eitthvað sem við þurfum líka að spá í og hvernig við komum fram við fólk og hvernig við mætum fólki, hvort við ætlum að refsa þeim eða hvort við ætlum að huga að þeim og styðja þau. Þess vegna langar mig að vita hvort hv. þingmaður haldi að refsingar hafi hjálpað þeim sem hann þekkir og öðrum sem hafa þá hætt sinni fíkniefnaneyslu, hvort refsingar hafi átt í hlut til að fólk hætti neyslunni.