Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir seigluna. Ég kem hingað upp á hverju ári til að hrósa hv. þingmanni fyrir það að leggja í þennan leiðangur enn einu sinni og ég geri það á þessum þingvetri sem fyrr. Hún hefur verið óþreytandi baráttukona fyrir þessu máli sem ég styð heils hugar og ég verð að segja að margur væri nú orðinn barinn á sál og líkama af þessari baráttu. En hér erum við mætt enn einu sinni með þetta mál sem ég er meðflutningsmaður á vegna þess að ég hef horft á ýmsar myndir þolenda þess kerfis sem við rekum, refsistefnu gagnvart veiku fólki. Ég verð að segja að blekkingarnar sem við höfum orðið vitni að hér í þingsal, sem hv. þm. Halldóra Mogensen kom aðeins inn á í ræðu fyrr í dag, af hálfu þeirra sem þó hafa afglæpavæðingu neysluskammta í stefnuskrá sinni, hafa valdið mér mjög miklum vonbrigðum. Þegar ég sat í hv. velferðarnefnd, og var þar formaður, þá varð maður þess mjög áskynja hversu mikið var gert til að koma í veg fyrir hvort tveggja, neyslurými sem og að afglæpavæðing neysluskammta yrði veruleikinn. Þetta gerðu líka þeir þingmenn sem hafa þetta á stefnuskrá sinni og mér fannst ákveðinn óheiðarleiki í því. Mér finnst betra ef fólk kemur bara hreint fram og segir: Ég trúi ekki á þetta, ég vil þetta ekki og ég held að þetta sé óheillaskref fyrir íslenska þjóð og almenning — frekar en að þykjast vilja þetta en gera svo allt til að koma í veg fyrir að það verði veruleikinn.

Hér hefur aðeins verið rætt um það í dag, sem og áður svo sem, að það þurfi að hugsa þetta mál til enda áður en farið er af stað. Nú er það svo að þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta mál er flutt heldur hefur það verið flutt árlega um árabil og stutt ýmsum rannsóknum í greinargerð, farið í gegnum mikið umsagnarferli í hv. velferðarnefnd þar sem kallaðir eru til helstu sérfræðingar í málaflokknum, kallaðir eru til virkir fíklar, kallaðir eru til aðstandendur, heilbrigðisstarfsfólk, lögreglufólk og auðvitað heilbrigðisstarfsfólk sem annast fíkla og vímuefnameðferðir. Það er því búið að fara mjög heildrænt yfir þetta.

Ég verð að segja hér fyrir þá sem ekki hafa nennt að lesa allar mögulegar umsagnir sem borist hafa við fyrri framlagningar, að meiri hluti þeirra sem komu fyrir nefndina hafa verið á því að þetta yrði til bóta fyrir þann hóp sem þessu er ætlað að hjálpa, þ.e. virka fíkla sem þurfa á hjálp samfélagsins að halda frekar en refsingu. Áður en ég settist hingað á þing þá var ég m.a. lögmaður og voru margir skjólstæðingar mínir virkir fíklar. Og það er ekki bara í þeirri stöðu þar sem einhver hefur tekið of stóran skammt sem hópurinn treystir sér ekki til að hringja á sjúkrabíl til að fá aðstoð fyrir þann sem er í lífshættu heldur eru það líka þolendur grófs ofbeldis sem þora ekki að hringja á lögreglu sér til aðstoðar af ótta við að vera fyrst hent í fangaklefa áður en kemur að hinu. Það er tómt mál að standa hér og segja að það sé auðvitað ekki þannig sem þetta sé iðkað af því að við vitum betur og að í fjölmiðlum sé fjallað um málið. Það eru ekki allir sem eru í virkri fíkniefnaneyslu sem fylgjast með fjölmiðlum frá degi til dags og kannski síst þeir sem eru hvað veikastir, síst þeir sem eiga ekki fasta búsetu, síst þeir sem vita ekki hvar þeir eiga höfði sínu að halla yfir nóttina. Það eru kannski síst þeir sem kveikja á sexfréttum að kvöldi til að hlusta á umræðu um hvernig lögreglan er. Þetta fólk er að bregðast við út frá eigin reynslu og reynslu þeirra sem þau eru í samskiptum við á hverjum degi. Ég held að við sem löggjafi þurfum að hlusta á nákvæmlega þennan hóp og lesa, rýna í rannsóknir frá þeim löndum þar sem þetta hefur verið ákveðið.

Það sem er gott í frumvarpinu er þetta ákvæði um að rannsaka mjög vel eftir að tekin er ákvörðun um að afglæpavæða neysluskammta hver þróunin er, að það sé fylgst vel með samfélaginu. Auðvitað verð ég að segja að innviðir okkar, heilbrigðiskerfið okkar, ræður ekki við ástandið eins og það er nú. Löggæslan og lögreglan ræður ekki við ástandið eins og það er núna. Þetta er allt ólöglegt en við erum með stóran hóp af fólki sem ræður ekki við fíkniefnaneyslu sína og enn þá stærri hóp aðstandenda sem kveljast vegna þess.

Það var aðeins talað um eilítufíklana hérna áðan, að þeim myndi fjölga svo mjög. Ég er ekkert viss um að svo verði. Ég er ekki viss um að neyslan verði meiri, alls ekki. Við erum með þessu, með því bara að afglæpavæða neysluskammta, aðeins að reyna að koma í veg fyrir það að veiku fólki sé refsað, frekar að því sé hjálpað. Það hefur komið fram í dag í máli hv. þingmanna að þeim sem eru lengra leiddir sé alveg sama hvort þetta sé löglegt eða ólöglegt, að einhver líti svo á að grasneysla sé lögleg. Það virðist vera sem meðal ungs fólks í dag sé meiri grasneysla en áfengisneysla. Að því leyti er þetta kannski ekki til neins. Kannski á þetta bara allt að vera löglegt. Það getur vel verið. Ég er ekki sannfærð um það samt. En mörg sem ég hef talað við sem þekkja þennan heim mjög vel eru jafnvel komin á þann stað, rétt eins og hv. þm. Tómas A. Tómasson sagði áðan, að kannski væri rétt að lögleiða þetta allt saman þannig að ríkið gæti séð um innflutning og sölu. En nú er vilji ákveðinna stjórnmálaflokka hér innan húss að ríkið fáist ekki við innflutning og fáist ekki við sölu á því vímuefni sem er hvað mest notað og veldur hvað mestu tjóni á Íslandi og um allan heim, sem er auðvitað áfengi. Það er stórkostlegur tjónvaldur. Það er svo ótrúlegt að vakna hverja einustu helgi og fyrstu fréttir frá morgni til hádegis er alltaf hvernig var á djamminu í gær, hversu margir þurftu að leita á slysadeild vegna ofbeldis eða annars, það eru heimilisofbeldi, hnífstungur o.fl.. Þetta er bara orðið normal ástand hverja einustu helgi á Íslandi, að þetta séu alltaf fyrstu fréttir. Það liggur við að maður standi og spyrji: Bíddu, er þetta frétt? Á þetta í alvöru að vera í fréttum? Þetta er eins og ef fyrsta frétt væri: Sólin kom upp í morgun. Þetta er að meginhluta til áfenginu að kenna. Það er bara þannig. Það er mesti skaðvaldurinn. En margir hér inni vilja að áfengi fari úr sölu hjá ríkinu og fari til einkaaðila. Það yrði þá væntanlega sama með fíkniefnin í kjölfarið. Ef það á að lögleiða þetta allt saman þá fer þetta væntanlega bara þangað. Við erum auðvitað með einkaaðila sem selja fíkniefnin í dag, þessi ólöglegu. Þetta mál gerir hins vegar ráð fyrir því að áfram verði framleiðsla og innflutningur á ólöglegum fíkniefnum, ólöglegum vímuefnum, ólöglegur en að eingöngu sé hætt að refsa fyrir vörslu neysluskammta.

Aðeins í lokin. Fyrir hv. velferðarnefnd kom laganna vörður sem var alfarið á móti því að þetta yrði fært í lög en upplýsti nefndina þó um það að í störfum sínum segði hann viðkomandi fíklum, sem hann var að skutla á betri staði, að skilja fíkniefnin eftir á gólfinu af því að viðkomandi mætti ekki fara með fíkniefnin inn á heilbrigðisstofnanir. Þarna staldraði maður við og benti verði laganna á að hann hefði enga lagalega heimild til að gera þetta af því að með þessu væri hann að praktísera það sem við erum að boða, að refsa ekki virkum fíklum fyrir vörslu neysluskammta. Hann væri hins vegar að gera það með því að brjóta lögin. Hann hefur enga heimild til þess og yfirmaður hans getur hreinlega kært hann fyrir lögbrot. Þarna sýndi laganna vörður mennsku sína í verki, sem ég fagna mjög, en við verðum líka að leyfa þá laganna vörðum að gera slíkt án þess að brjóta lögin, að þeir fái bara að sýna mennsku sína og að þeir vilji raunverulega hjálpa fólki í neyð með því að vera ekki að refsa þeim fyrir vörsluna.