Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur kærlega fyrir fína ræðu. Flestir þeir punktar sem þar komu fram eru punktar sem ég hefði getað nefnt í svipaðri ræðu. Ég er einn af stuðningsmönnum og meðflytjendum þessa máls, hef fylgt því eftir undanfarin ár og dáðst að elju flutningsmanns, hv. þm. Halldóru Mogensen. Líkt og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir var ég í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili þar sem málið var til umfjöllunar býsna lengi og fór þar býsna marga hringi. Hv. þingmaður kom aðeins inn á að það væri eiginlega heiðarlegra að lýsa því yfir, og þá er ég að vísa í stjórnarmeirihlutann, að hann hefði engan áhuga á að koma málinu í gegn, það væri réttara að segja það bara í staðinn fyrir að bjóða upp á það sem eiginlega er hægt að lýsa sem einhverju leikriti á síðasta kjörtímabili. Nú sit ég ekki í velferðarnefnd lengur en ég sé að í málaskrá ríkisstjórnarinnar, í kaflanum yfir mál heilbrigðisráðherra, er mál nr. 8, frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, afnám refsingar. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Frumvarpið felur í sér breytingu á ákvæði laganna um vörslu og meðferð á þann hátt að heimila vörslu ávana- og fíkniefna sem teljast til eigin nota.“

Málið á að koma fram í mars. Þetta er reyndar gömul saga. Þetta höfum við séð áður og lesið áður og höfum búist við áður. Mig langar bara að biðja hv. þingmann að velta því upp: Eru líkur á því að við séum núna að fá þetta mál í gegn? Hverjar eru líkurnar á því að gera það frekar núna en í fyrra og árið þar áður eða jafnvel árið þar þar áður, þetta eru jú sömu stjórnarflokkar, að hleypa þessu ágæta máli einfaldlega í gegn sem felur ekki í sér annað en leyfi til ráðherra að setja reglugerð og klára málið?