Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:57]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu og líka fyrir að rifja aðeins upp ferlið í velferðarnefnd. Það er náttúrlega áhugavert af því að ástæðan fyrir því að ég er að leggja þetta mál fram aftur og aftur er sú að mér finnast stjórnvöld, ríkisstjórnin, hafa brugðist þegar kemur að því að leggja þetta fram, því miður. Ég vona alltaf að það sé raunverulegur vilji til að leggja þetta fram. En ef viljinn er til staðar þá skortir einhvers konar hugrekki eða þor eða mögulega var viljinn aldrei til staðar. Það er annað af þessu tvennu. Ég sé það bara sem skyldu mína og hlutverk að setja þrýsting á þetta af því að í velferðarnefnd á seinasta kjörtímabili varð ég vitni að því hvernig frumvarp heilbrigðisráðherra var svæft í nefndinni. Framsögumaður málsins, sem var úr þingflokki Vinstri grænna, hafði engan áhuga á að taka málið út úr nefndinni og ég þrýsti og þrýsti á að það yrði gert: Það var búið að fjalla um málið, málið var tilbúið. Það var enginn vilji til þess að taka það úr nefnd þrátt fyrir að ég ýtti og ýtti og í raun grátbæði um að málið yrði tekið út úr nefnd og það var ekki gert. Það var ekki vilji til að taka málið út úr nefnd. Og nú erum við með heilbrigðisráðherra sem er með þetta mál á þingmálaskrá í annað skipti og virðist ekki ætla að ná því í gegn, því að eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir benti á þá kemur þetta fram allt of seint. En spurning mín til hv. þingmanns er: Hvernig túlkar hún sem lögfræðingur orð heilbrigðisráðherra þegar hann kemur fram í fjölmiðlum og lýsir því yfir að það gæti verið góð hugmynd að hætta bara að refsa veikasta hópnum, sem sagt þeim sem eiga við vímuefnavanda að stríða, en halda áfram að refsa öllum hinum? Stenst þetta? Hvernig gerum við þetta? Búum við til einhverja fíklaskrá ríkisins? Stenst það lög, stjórnarskrá? Hvernig virkar þetta?