Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[18:43]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir andsvarið. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það þarf miklu meira en það og það er ekki endilega það sem fólk vill eða vill taka á móti. Og það að vera aðstandandi þeirra sem eru með fíkniefnavanda er ekki einfalt. Það er mjög margslungið og flókið. Þarna var ég meira að tala um að kerfið myndi taka við þeim, þannig að ég var ekki beint að meina aðstandendur. En auðvitað skipta aðstandendur máli. En það sem gerist oft þegar er mikill fíknivandi er að það getur orðið rosalega slæmt samband á milli einstaklinga í fjölskyldunni og það geta átt sér stað ýmisleg áföll, fyrir báða aðila. Það sem ég vil er að við tökum fólkið og segjum bara: Þú ert ekki glæpamaður þó að þú sért fíkill. Það er minn lokapunktur. Þú þarft ekki að skapa þá sjálfsmynd, ef svo má segja, að þú sért glæpamaður þótt þú sért að díla við fíkn. Við erum að tala um að við og samfélagið sé ekki að fara að refsa þessu unga fólki sem er bara oft mjög brotið og er kannski inn í kerfinu eða annað og vill bara aðstoð, við viljum ekki að ofan á það séu refsingar, sektir og annað. Það er eitthvað sem á alls ekki að líðast. Kerfið þarf einhvern veginn að hjálpa þeim upp og styðja við það í staðinn fyrir að refsa þeim. Um það snýst þetta.