Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[19:07]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir andsvarið. Spurningin sneri að lögreglunni og upplifun minni af þeirri umræðu. Ég hef þá trú að það sé gríðarlega algengt að við heyrum neikvæðar sögur úr heilbrigðiskerfinu. Við heyrum gríðarlega neikvæðar sögur úr lögreglunni. Við heyrum af því að þegar einhver þurfti að stóla á þessa aðila á ögurstundu þá brugðust þeir. Þetta er með mörg önnur kerfi sem við höfum. Mín reynsla er hins vegar sú — og við höfum fengið í velferðarnefnd, og eins í allsherjar- og menntamálanefnd, fólk frá lögreglunni og við höfum verið að ræða þar ýmis mál, ekki endilega tengd þessu — að mér finnst vera mikil vakning innan lögreglunnar. Þar er verið að endurmennta stöðugt. Þar er verið að fjalla um mál hinsegin fólks. Það er verið að fjalla um mál fólks af erlendum uppruna. Það er alltaf verið að reyna að bæta öll vinnubrögð og mæta þeim sem þau eru að aðstoða af virðingu. Auðvitað getur það gerst að eitthvað bregðist en það er ekki mín upplifun að lögreglan á Íslandi vinni að eigin frumkvæði að sérstaklega hörðum refsingum eða komi sérstaklega illa fram. Það er ekki mín reynsla. En ég get þó ekki svarað fyrir að það sé upplifun ákveðinna hópa eða einstaklinga.