Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[19:21]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér er mikill misskilningur í allar áttir. Ég átta mig alveg á því að það að ungur einstaklingur sé handtekinn af lögreglu geti valdið tráma og geti fylgt einstaklingnum en ungt fólk getur líka verið handtekið fyrir allt mögulegt. Við getum ekki bara afglæpavætt samfélagið. Það var það sem ég var að meina. Viðkomandi er að gera eitthvað sem ekki má. Við erum að tala um barn, við erum að tala um einhvern sem er 17 ára sem ekur undir áhrifum, sem brýst inn. Það verður alltaf áfall að vera handtekinn en ég sé ekki að lausnin sé endilega að taka brotið og gera það löglegt, til þess að fólk fái ekki tráma vegna samskipta við lögregluna. Ég held við þurfum frekar að vinna þá í því að lögreglan okkar nái betur til fólks svo við getum einhvern veginn unnið á þeim mikla ótta sem hér er verið að lýsa.

Spurningin sneri að áfengi, hvort ég vildi að neysla og varsla áfengis væri gerð refsiverð. Ég held, frú forseti, að ég hafi verið spurð að því. Nei, sjálf nota ég ekki áfengi, sjálf vil ég ekki sjá áfengi í verslunum, sjálf vil ég ekki auka aðgengi að áfengi. Ég er mjög meðvituð um þann skaða sem áfengisneysla landsmanna, eins og öll önnur fíkniefnaneysla, hefur. Sumir ráða við neysluna sína, aðrir gera það ekki og fólk verður virkilega veikt. Ég hef ekki stillt upp efnum og þegar ég minntist á kannabis áðan þá var það af því að mér finnst talað (Forseti hringir.) af allt of mikilli normalíseringu um það. Þannig að svarið er nei, ég vil ekki gera það refsivert en ég vil hafa lög og reglur um það.