Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana-og fíkniefni.

5. mál
[19:37]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu. Ég er kannski með svolítið almennar vangaveltur af því að hv. þingmaður var að tala um hvernig við fórum með áfengið og hvernig við í sögunni höfum aukið aðgengi að áfenginu, frá því að það var bannað og í að það sé til á afmörkuðum sölustöðum ríkisins. Það var líka tekið í skrefum. Það var ekki tekið með því að gera bara eitthvað út í loftið, það var tekið í skrefum og við erum enn þá að taka þessi skref, ansi hægt að mínu mati en við erum að gera það. Þá velti ég því fyrir mér hvort umræðan í dag og það að við séum að ræða þetta mál sé ekki einmitt til þess fallið að umræðan þroskist líka í samfélaginu, að það verði meiri vitundarvakning af því að við erum að ræða þetta hér í dag. Ég er mjög þakklát fyrir þessa umræðu hér í dag. Ég er kannski að velta því fyrir mér hvort það þurfi ekki smá tíma til að innleiða viðhorfsbreytingu í þessum málaflokki, hvernig hv. þingmaður sjái það fyrir sér, og hvort það taki ekki einfaldlega tíma.