Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[19:50]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Til að koma að fyrri hluta fyrirspurnarinnar varðandi það svar sem ég fékk hér og var lagt fram í þinginu þá skortir vissulega mikið upp á gögn til þess að greina en ekki varðandi það sem snýr að nákvæmlega því sem ég var að tala um, þ.e. það eru til gögn sem sýna það að 84% þeirra sem lenda í refsivörslukerfinu okkar vegna vörslu fíkniefna gera það í tengslum við önnur brot, það tengist öðrum brotaflokkum. Við nánari eftirgrennslan um þá brotaflokka þá er um að ræða umferðarlagabrot, ofbeldisbrot, eignaspjöll, húsbrot, brot gegn friðhelgi einkalífs og þar fram eftir götunum. Það voru önnur gögn t.d. varðandi sakavottorð og annað sem ég gat ekki fengið kölluð fram einhverra hluta vegna. Ég verð að koma inn á seinni hlutann í síðara andsvari mínu.