Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Ummæli innviðaráðherra um skattamál.

[10:57]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér eru notuð býsna stór orð. Ég ætla nú að komast hjá því að falla í þá gryfju að vera þar. Það er nú nokkuð augljóst, svo ég reyni að ruglast ekki í þessum persónufornöfnum forseta, að ef þingmaðurinn horfir til stefnu ríkisstjórnarinnar síðustu ár þá hefur það einfaldlega verið sú stefna sem við Framsóknarmenn höfum kynnt til sögunnar, og ég veit að hv. þingmaður þekkir, sem kennd er við Keynes nokkurn. Sú stefna hefur reyndar ekki bara verið á Íslandi vegna þess að hún hefur hentað mjög vel við þær aðstæður sem uppi hafa verið á síðustu árum og er í raun og veru stefna Framsóknarflokksins. Við lögðum mjög mikla áherslu á að hún yrði farin á síðastliðnum tveimur, þremur árum. Talandi um áhrif Framsóknarflokksins á efnahagsmál og fjármál þá held ég að því sé þar með svarað.

Við erum hins vegar núna farin í þenslu. Við höfum sagt að við þurfum að vakta heimilin, að við þurfum að vakta þá aðila sem minna bera úr býtum og við vitum að þær aðstæður sem uppi eru munu auka þrýstinginn á, gera fólki erfiðara fyrir. En við erum líka búin að vera að gera þetta allan tímann, hv. þingmaður. Ég verð að segja, herra forseti, að staðan þar er miklu betri en við óttuðumst, m.a. þess vegna höfum við ekki gripið inn í. Ég hef heyrt hv. þingmann hrópa hér á torgum að allt sé að fara til helvítis. En það er rangt, það er rangt. Við ætlum að halda áfram að fylgjast með og grípa inn í ef með þarf. Þær leiðir sem ég hef lagt til, sem varaformaðurinn hefur lagt til og það kemur ekki á óvart að allur flokkurinn stendur á bak við, er að sú stefna sem við stöndum við — að þegar á þarf að halda þá viljum við fara þá leið sem ég var að kynna. Ég var ekki að kynna prógramm næstu vikna hjá ríkisstjórninni heldur skoðun mína sem formanns Framsóknarflokksins.