Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

153. mál
[13:11]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að mörgu að hyggja þegar kemur að því hvernig við skipum málum til framtíðar í þessu. Við til að mynda horfum á þá staðreynd að þróunin hér á stórhöfuðborgarsvæðinu hefur verið mjög hröð í áttina að bálförum, yfir 70% útfara eru bálfarir í dag. Hlutfallið er aftur á móti miklu lægra úti á landi. Það eru allir sammála um að það sé að mörgu leyti ástæða til að hvetja frekar, hafa umgjörðina þannig, til bálfara. Það má til að mynda tala um landnýtingu og annað í því sambandi. En það er augljós mismunun í aðstöðu fólks sem býr úti á landi og þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu varðandi aðgang að þessari þjónustu og þess vegna er hlutfallið eins og raun ber vitni.

Því hefur gjarnan verið haldið fram að einungis sé pláss fyrir eina bálstofu á Íslandi. Það hlýtur auðvitað að tileinkast af þeim kostnaði sem lagður er til grundvallar á því að hafa þessa þjónustu til staðar. Þær hugmyndir sem hafa verið uppi, bæði hjá kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæmis og hjá félaginu Tré lífsins, byggja auðvitað mjög stóra starfsemi í kringum þetta meðan að bálförin sem slík getur átt sér stað í tiltölulega einföldu umhverfi. Þetta er það sem við erum að skoða.

Kostnaður við ofna og annað hefur farið mjög mikið niður á síðustu árum og ég hef aðeins verið að kynna mér það. Ég hallast að því að ástæða geti verið til að hafa þetta mögulega alveg frjálst, að þeir fari í þetta sem vilja, að ákveðinn hluti kirkjugarðsgjalds sem fólk greiðir verði til ráðstöfunar í þessu sambandi. Þegar ofnar kosta kannski nú orðið, jafnvel notaðir ofnar, niður í nokkrar milljónir króna, (Forseti hringir.) að mér liggur við að segja og hef séð dæmi um, þá geta aðilar úti um land augljóslega einnig komið þessari þjónustu upp (Forseti hringir.) á öðrum svæðum. Þetta er allt til skoðunar og verður niðurstaða okkar byggð á víðari skoðun á þessum málum.