Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

153. mál
[13:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og frumvarpið og get fullvissað hann um að við í hv. allsherjar- og menntamálanefnd munum taka þetta fyrir og fara yfir þær umsagnir sem hafa borist. Því miður hefur okkur ekki tekist áður að fá gesti út af þessu máli en munum að sjálfsögðu gera það.

Ég fagna mjög því sem kom fram í máli ráðherra hér áðan varðandi það að það þarf að skoða stóru myndina og þar er landsbyggðin auðvitað inni. Það er ankannalegt, ef við viljum að ekki sé dregið úr valfrelsi fólks og að fólk geti tekið ákvörðun um að láta brenna sig að sér gengu, að aðgengið skuli ekki vera betra fyrir fólk á landsbyggðinni en raun ber vitni.

Ég vildi ekki síður, virðulegur forseti, nota tækifærið til að nefna að annað frumvarp liggur fyrir þinginu, um breytingu á sömu lögum. Það er á þskj. 27 og fjallar um dreifingu á ösku. Ég er fyrsti flutningsmaður á því frumvarpi og það er líka mál sem ég hef mælt fyrir allnokkrum sinnum en hefur, eins og oft vill verða með þingmannamál, ekki fengið brautargengi. Ég vona að þetta mál fái hér brautargengi og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að horfa til þess að það er ekki bara umgjörðin í kringum þetta, þ.e. brennslurnar og annað, heldur líka að valfrelsið nái fram yfir það. Það er með öllu óeðlilegt, að mínu mati, að hið opinbera hafi á því sterkar skoðanir að veljir þú að láta brenna þig þá beri að jarðsetja kerið. Það er það sem lögin segja. Svo getur þú sótt um undanþágu og þá er það innan mjög strangs ramma. Ég óska eftir að hæstv. ráðherra komi með mér í lið og breyti þessu íþyngjandi gamla lagaákvæði og reglugerðum sem því fylgja þannig að við opnum svolítið á þetta og virðum frelsi einstaklingsins út yfir gröf og dauða.