Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[13:16]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég ætlaði nú bara að koma örstutt upp og lýsa yfir ánægju minni með þá góðu umræðu sem átti sér stað í gær og á sama tíma aðeins að súmmera þann skilning sem ég tek úr þeirri umræðu og tel mikilvægt að halda til haga. Það komu fram athugasemdir um að mál heilbrigðisráðherra um að afnema refsingar væri ekki á þingmálaskrá fyrr en í mars, sem mér þykir miður. Það grefur undan trúnni á að það mál nái fram að ganga. Þá er mjög stutt eftir af þinginu og mikið álag á velferðarnefnd sem er með gríðarlega mikið af málum inni hjá sér á þessum tíma, því miður.

Hitt sem mér þótti miður var að heyra hvernig þingmenn meiri hlutans, sem tóku þátt í umræðunni í gær, voru flestir sammála því og tóku undir með mér að refsistefnan væri ekki að virka. Flestallir voru sammála um að refsistefnunni þyrfti að breyta því að hún væri ekki að skila gagni, hún væri ekki að ná markmiðunum, hún væri ekki til bóta, hún væri ekki að skila neinu til samfélagsins. Ég fann hljómgrunn þar sem er mjög gott. Þeir sem tóku þátt í umræðunni í gær, þingmenn meiri hlutans, virðast vera sammála um að ekkert gagn sé í refsistefnunni, og hún sé meira að segja að valda skaða, en mér þykir miður að samt er alltaf verið að kalla eftir bið, að við eigum að bíða þangað til búið verður að fara í heildarendurskoðun, að við eigum að bíða þangað til búið verður að efla meðferðarúrræði, að við eigum að bíða þangað til búið verður að efla forvarnir — það er alltaf ástæða til að bíða. Þetta er sami tónninn og ég hef heyrt frá því að ég lagði málið fyrst fram, það er alltaf þessi bið eftir einhverju sem virðist aldrei gerast.

Nú hefur þessi ríkisstjórn haft dágóðan tíma til að gera alla þessa hluti, en hefur ekki gert neitt enn þá. Ég velti því fyrir mér hvers vegna við þurfum að halda áfram að valda skaða í lífi fólks til að bíða eftir því að úrræði séu bætt og heildarendurskoðun fari í gang þegar þingið gæti gefið samfélaginu þau skilaboð, með því að samþykkja þetta frumvarp, að við viljum afglæpavæða. Það er hægt að stilla gildistímann þannig að þetta taki gildi eftir ár. Þetta er eitthvað sem tíðkast erlendis þegar verið er að fara í svona lagabreytingar. Á þessu ári gæti ráðherra og ríkisstjórnin farið í þá vinnu að fara í þessa heildarendurskoðun, að fara í að styrkja og efla þessi meðferðarúrræði og forvarnastarfið. Á sama tíma væri þingið búið að gefa þau mikilvægu skilaboð út í samfélagið að það standi til að hætta að refsa fólki fyrir að nota vímuefni.

Þetta er það sem ég tek út úr þessari umræðu og það grefur dálítið undan von minni um að þetta mál nái fram að ganga og að heilbrigðisráðherra nái að klára þetta mál á þessu þingi, því miður. Ég vildi óska þess að það væri meiri vilji, að það væri meira hugrekki til að stíga þetta skref. Það gat enginn, forseti, ekki einn einasti þingmaður, svarað mér þegar ég spurði í gær hverju núverandi stefna væri að skila. Hverju skilar það til samfélagsins og hverju skilar það þeim einstaklingum sem við erum að refsa að halda þessari refsistefnu áfram? Því gat enginn svarað. Ef við getum ekki svarað því og sýnt fram á að núverandi refsistefna sé að ná markmiðum sínum finnst mér að okkur, löggjafanum, beri að breyta stefnunni.