153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

tæknifrjóvgun o.fl.

8. mál
[13:21]
Horfa

Flm. (Hildur Sverrisdóttir) (S):

Frú forseti. Það er ekki sjálfsagður hlutur að geta eignast barn og mörg þurfa aðstoð tæknifrjóvgunar. Mér finnst að lögin eigi að vera fólki til hjálpar sem er í þeirri vegferð í staðinn fyrir að lögin geri verkefnið erfiðara. Því er ég sérstaklega glöð með að standa hér í dag og mæla fyrir frumvarpi sem ég hef lagt fram í tvígang og mæli nú fyrir í fyrsta sinn svo lagaumhverfið geti frekar aðstoðað fólk í þeirri vegferð að eignast barn í stað þess að reynast því þröskuldur. Nóg er til af óþarfa þröskuldum í heiminum og nauðsynlegt að fækka þeim þar sem hægt er.

Reglukerfið í kringum tæknifrjóvganir er að mörgu leyti ágætt en er upphaflega frá árinu 1996. Ég hugsa með mikilli hlýju og samúð til allra þeirra sem áður stóðu í eflaust mjög sársaukafullri baráttu til að eignast barn án þeirrar þekkingar, tækni og umræðu sem við þó búum við nú.

En þótt lagaumhverfi tæknifrjóvgana hafi tekið breytingum síðan þá verður að endurskoða það sem úrelt er og hreinlega vont, að mínu mati, í núgildandi lögum.   Af illskiljanlegum ástæðum er t.d. lagt bann við því í núgildandi lögum að gefa tilbúinn fósturvísi. Það er bannað að gefa fósturvísi þótt bæði sé heimilt að gefa sæði og egg. Blessunarlega eru það ekki margir sem eru í þeirri stöðu að geta hvorki notað egg sín eða sæði af einhverjum ástæðum en það gerist og í þeim aðstæðum er fyrir þá einstaklinga dýrmætara en gull að geta þegið fullbúinn og þroskaðan fósturvísi að gjöf. Staðreyndin er sem sagt sú ef t.d. par vill aðstoða einhverja sem það þekkir sem á erfitt með að eignast barn, má það par samkvæmt lögunum gefa annars vegar egg og hins vegar sæði en alls ekki tilbúinn fósturvísi úr sama eggi og sama sæði. Íslensk lög leggja blátt bann við því að það megi, sem er að mínu viti óskiljanlegt og það verður að segjast að röksemdafærsla fyrir þessu í greinargerð laganna er rýr.  

Forseti. Fólk sem kýs að nýta sér aðstoð tæknifrjóvgunar við að eignast barn verður samkvæmt núgildandi lögum að vera skráð í staðfesta sambúð eða hjúskap. Kannski atriði sem hljómar ekki svo skrýtillega. Er þetta ekki bara eðlileg krafa? En, forseti, er hún það? Hvað er það nákvæmlega sem kallar á að það sé nauðsynlegt að fólk sem hefur hug á að eignast barn saman sé í skráðri sambúð eða í hjónabandi? Ég get ekki svarað því en það er hins vegar mín skoðun að ríkisvaldið á ekki að óþörfu að hafa skoðun eða miðstýra því hvernig fólk kýs að búa til fjölskyldu þegar engin ástæða er til.

Kannski má í þessu samhengi minna á að íslenska ríkið gerir ekki kröfu um sambúðarform áður en fólk eignast börn, blessunarlega, því það myndi líka eflaust kalla á helst til mikla skriffinnsku á börum bæjarins.  

Öllu alvarlegra er að sambúðarkrafan veldur því að við skilnað er fólki bannað að nýta fósturvísi sinn jafnvel þótt einstaklingarnir vilji samt eignast barnið saman eða fyrir liggi samþykki beggja aðila fyrir því að annað þeirra nýti fósturvísinn. Það sama á við um þær sorglegu aðstæður ef fólk á fósturvísi og annað þeirra andast. Íslensk lög gera skýlausa kröfu um að í þeim aðstæðum verði að eyða fósturvísinum þrátt fyrir skýran og staðfestan vilja beggja aðila um að hann verði nýttur eftir andlát annars þeirra.

Forseti. Ég ætla að fá að endurtaka þennan punkt svo hann fari örugglega ekki á milli mála: Ef fólk slítur sambúð eða hjónabandi, eða annar aðilinn andast, verður samkvæmt núgildandi lögum að farga öllum fósturvísum þeirra einstaklinga þrátt fyrir að það liggi fyrir vilji og samþykki beggja um að fósturvísarnir verði nýttir.

Herra forseti. Þetta fyrirkomulag er allt of stíft, algjör óþarfi, allt of sársaukafullt og verður að breyta.   Reglur núgildandi laga er eflaust, eða var, hægt að rökstyðja út frá ýmsum ástæðum líkt og flest. En þegar hlutirnir enda í fanginu á ríkinu gerist það of oft að það fer að hafa of mikil afskipti, óþarfa afskipti, hlutir úreldast og fara að stýra of mikið tilveru fólks sem þróast kannski áfram og á annan hátt en lagareglurnar segja til um. Við eigum því þvert á móti að treysta fólki til að finna lífi sínu þann farveg sem það telur best og þá sérstaklega þegar rökstuðningurinn er jafn rýr og raun ber vitni. Reglur eiga að vera fáar og skýrar eins og kostur er, annars skapast í þessu eins og öðru flókið regluverk þar sem sífellt þarf að plástra og bæta við nýjum reglum til að koma til móts við ólík sjónarmið. Það sem meira er; ríkið á þá enn erfiðara með að bregðast við því að samfélagið sé í sífelldri mótun. Viðhorf okkar til aldurs hafa t.d. breyst, við kynnumst seinna en áður og hugum að barneignum seinna en áður og höldum heilsu og orku lengur en áður. Fyrir utan þann augljósa punkt að við erum nú ekki mikið að skipta okkur af því af hverju og í hvernig aðstæðum og á hvaða hátt fólk vill almennt eignast börn. Ríkið hefur enga ástæðu til að fara að skipta sér af því þótt fólk þurfi aðstoð tækninnar til þess.  

Forseti. Það er rétt að nefna að oft hafa heyrst að rökin fyrir íþyngjandi reglum í þessu samhengi séu hagsmunir barnanna. Hagsmunir barna skipta miklu máli, en við höfum lög og reglur í samfélaginu sem gæta hagsmuna barna. Við getum alveg treyst því að þær eigi við sama hvaðan og hvernig börnin koma. Hið opinbera hefur t.d. áður sett íþyngjandi reglur á grundvelli hagsmuna barna sem var svo horfið frá. Það er t.d. ekki ýkja langt síðan afnumið var bann við því að systir konu sem á í erfiðleikum gæti gefið henni gjafaegg þar sem þá var talið að það yrði of erfitt að alast upp í svo flóknu fjölskyldumynstri. Sömuleiðis takmarkaði ríkið áður rétt samkynhneigðra til að eignast börn með þeim rökum að það væri of erfitt fyrir börn að alast upp hjá samkynja foreldrum. Allt atriði sem okkur finnst blessunarlega sjálfsagt að sé heimilt í dag og góð áminning um að líf okkar, tilvera og viðmið á það til að breytast hraðar en regluverk hins opinbera.  

Forseti. Reglur eiga að vera fyrir fólk og við eigum aldrei að vera hrædd við að endurskoða þær. Ég er því mjög glöð að mæla fyrir þessu máli til að taka fleiri skref til aukins frelsis, stuðnings og sjálfsákvörðunarrétti gagnvart fólki sem vill eignast börn.

Nánar tiltekið eru efnislegar tillögur í frumvarpinu sem ég hér mæli fyrir þær að lagðar eru til breytingar á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, og barnalögum, nr. 76/2003. Í frumvarpinu er lagt til að sambúð eða hjúskapur verði ekki lengur skilyrði fyrir því að einstaklingar geti staðið saman að tæknifrjóvgun í þeim tilgangi að búa til barn. Frekar skal byggt á upplýstu, skriflegu og vottuðu samþykki beggja einstaklinga gagnvart tæknifrjóvgunarferlinu og geymslu fósturvísa að því loknu. Við þá breytingu gerist í raun ósjálfrátt það sem mér fannst ástæða til að nefna í tvígang hér áðan, að aftengd er og rakin upp krafa núgildandi laga um að það verði að eyða þeim fósturvísum sem til eru við skilnað fólks eða andlát annars þeirra. Engu að síður fannst mér ástæða til að taka það sérstaklega fram í greinargerð svo að það færi örugglega ekki á milli mála að það myndi gerast sjálfkrafa við að afnema sambúðarkröfuna.

Einnig er lagt til að gjöf fósturvísa verði heimil, en þó ekki í ábataskyni. Sú heimild byggist á sama grunni og heimild til að gefa kynfrumur til tæknifrjóvgunar þriðja aðila og verði háð upplýstu, skriflegu og vottuðu samþykki gjafans. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra skuli í reglugerð gera betur grein fyrir því hvernig upplýst samþykki hlutaðeigandi í tæknifrjóvgunarferli skuli uppsett og útfært.

Við gerð frumvarpsins var löggjöf þriggja annarra landa skoðuð þegar kemur að tæknifrjóvgun og þeim skilyrðum sem gerð eru til einstaklinga sem leita þeirrar heilbrigðisþjónustu til að eignast barn. Í stuttu máli eru þau lönd, Bretland, Danmörk og Spánn, öll með rýmri löggjöf en núverandi reglur segja til um og myndi frumvarpið sem ég mæli hér fyrir færa íslenska löggjöf nær því hvernig þar er hafður háttur á. Nánar er fjallað um löggjöf þeirra landa í greinargerð frumvarpsins.

Forseti. Það er mikilvægt að þeir einstaklingar sem leggja þurfa upp í langt, erfitt og kostnaðarsamt ferli tæknifrjóvgunar til að freista þess að eignast barn og búa til fjölskyldu upplifi að umgjörð laganna og reglur um tæknifrjóvgun séu gerðar með hag þeirra fyrir brjósti og þeim til aðstoðar. Frumvarpið miðar að því að fullorðnu fólki skuli treyst til að haga lífi sínu eins og það vill svo fremi sem það sé öðrum að skaðlausu. Reglurnar skuli vera eins skýrar og einfaldar og kostur er. Lög og reglur eru fyrir fólk og löggjafinn á ekki að vera hræddur við að endurskoða þær í takt við tímann og auka tækifæri fólks til að búa til fjölskyldu.

Ég segi því hér einu sinni enn, að lokum, að ég er mjög glöð með að vera hér að mæla fyrir þessu máli. Máli sem mun auðvitað ekki valda straumhvörfum fyrir allan þann fjölda fólks sem glímir við ófrjósemi og þarf að nýta sér aðstoð tæknifrjóvgunar. Það þarf enn að rýna fleiri þætti eins og til dæmis kostnað. En fyrir þá einstaklinga sem eru í vandræðum vegna stífra reglna núgildandi laga munu þessar breytingar skipta öllu heimsins máli.  

Forseti. Ég stend ekki ein að þessu frumvarpi. Meðflutningsmenn mínir að þessu frumvarpi eru úr öllum flokkum sem starfa á Alþingi og ég vil fá að nota tækifærið og þakka fyrir það. Meðflutningsmennirnir eru hv. — og núna uppáhalds — þingmenn Bergþór Ólason, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Helga Vala Helgadóttir, Jakob Frímann Magnússon, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2023 enda er ekki um mjög tæknilega flóknar breytingar að ræða, kostnaðurinn er enginn og gagnvart því fólki sem þessi lagabreyting myndi hjálpa þá er hver mánuður sem eilífð að líða.

Að lokum hlakka ég til að heyra öll þau sjónarmið sem geta komið að gagni við málið og legg til að málið gangi að lokinni 1. umr. til hv. velferðarnefndar.