Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

vextir og verðtrygging o.fl.

12. mál
[16:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Eftir 20–25 ár þegar afborgunin er rúm milljón, þá hafa laun væntanlega þróast líka (ÁLÞ: … 1,9.) og hingað til hefur það verið þannig að launaþróun hefur verið meiri en verðbólgan. Þetta er því væntanlega vel umfram útborguð laun ef veðmálið stenst eftir 20–25 ár. En það er einmitt veðmál sem við ættum ekki að þurfa að taka og það er eins og hv. þingmaður segir, og ég er sammála, að það er ekki til neitt gott lánaform á Íslandi. Óverðtryggð lán eru á svimandi háum vöxtum miðað við samanburðarlönd. Ef við mættum taka húsnæðislán einhvers staðar annars staðar fyrir íbúð á Íslandi og með miklu lægri vöxtum þá væri það mjög áhugavert. Að vísu værum við þá að velta áhættunni út í gengið, í gengisbreytingar og svoleiðis, þannig að þar kæmi vaxtamunurinn væntanlega fram í staðinn þegar allt kæmi til alls. Þá erum við bara í, held ég, krónuvanda þegar allt kemur til alls. Og kannski ágætt að enda umræðuna á því að krónan leiðir kannski af sér hátt vaxtastig og ýtir undir leti stjórnvalda til að haga efnahagsmálum almennilega. Úr því verður verðbólga sem skellir öllum kostnaðinum á heimili landsins.