Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

7. mál
[18:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu okkar í þingflokki Miðflokksins um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar. Fyrsti flutningsmaður er formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem er erlendis í dag á vegum Alþingis og ég flyt því framsögu vegna málsins fyrir hans

Frú forseti. Landbúnaður er undirstöðuatvinnugrein búsetu á íslandi og hefur verið frá landnámi. Þessi mikilvæga atvinnugrein berst nú fyrir tilveru sinni. Hér hefur komið fram ótal sinnum undanfarin þing hversu snúin staða margra greina landbúnaðarins er og sífellt virðast stjórnvöld draga lappirnar, hvort sem það varðar að bæta regluumhverfi, draga úr kostnaði, einfalda rekstur eða styðja við þær greinar landbúnaðarins sem þurfa á beinum stuðningi að halda með þeim hætti sem nauðsynlegt er. Ég hef haft orð á því að það væri heiðarlegra að mörgu leyti af stjórnvöldum að tosa ekki bændur í hinum ýmsu greinum á asnaeyrunum heldur segja þeim að það sé ekki vilji stjórnvalda að viðhalda þeim búrekstri landið um kring sem viðhafður hefur verið um árhundruð. Það er sótt að greininni úr mörgum áttum. Það er ekki bara þetta sinnuleysi á köflum og aðgerðaleysi stjórnvalda heldur líka afleiddir þættir eins og áhrif tollasamningsins sem var gerður hér 17. september 2015 við Evrópusambandið. Það er 7. liður þingsályktunartillögunnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Tollasamningi landbúnaðarráðherra frá 17. september 2015 við Evrópusambandið verði sagt upp nú þegar eða óskað endurskoðunar á honum, m.a. með tilliti til útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.“

Það eru svona aðgerðir sem munu styðja við íslenskan landbúnað til framtíðar og gera okkur kleift að fara úr þessari langtímavörn í öfluga sókn hvað innlenda matvælaframleiðslu varðar.

Það eru fleiri aðgerðir stjórnvalda sem hafa komið illa við landbúnaðinn undanfarið. Ef við horfum bara á aðgerðir sem núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa komið að þá má nefna t.d. ákvörðun um að heimila að flytja inn hráar og ógerilsneyddar matvörur sem er hreinlega ótrúleg aðgerð þegar við horfum á þá sérstöðu sem íslensk landbúnaðarframleiðsla hefur með tilliti til lítillar notkunar sýklalyfja og þeirrar einangrunar sem hefur tryggt hreinleika íslenskra matvæla alla tíð í raun. Þessir þættir verða að koma til skoðunar.

Kostnaður búa hefur aukist alveg gríðarlega og það eru ekki bara áhrif af heimsfaraldrinum og síðan stríðinu í Úkraínu heldur eru það ýmsar reglur sem eru smíðaðar utan um stór verksmiðjubú í Evrópu sem eru innleiddar hér og eru hinum íslensku fjölskyldubúum í raun ofviða. Í allt of litlum mæli er tekið tillit til þess kostnaðar og þeirra takmarkana og neikvæðu áhrifa sem slík reglusetning og innleiðing án aðlögunar að raunheimum hér á Íslandi hefur á búrekstur.

Sú þingsályktunartillaga sem ég mæli hér fyrir er í 24 sérstökum liðum. Þetta er heildstætt plan sem gengur út á það að forma leiðina, hvernig við komumst úr þessari vörn í sókn fyrir innlenda matvælaframleiðslu. Ég ætla að nefna hér af handahófi nokkur atriði sem fjallað er um í þessum 24 liðum en það gefst ekki tími til að fara í hvert og eitt þeirra í stuttri ræðu við þetta tilefni.

1. liður, með leyfi forseta, hljóðar svo: „Stuðningur við landbúnað verði stóraukinn og rekstrarafkoma matvælaframleiðenda styrkt. Fjárframlög til greinarinnar verði aukin og stefnt að lækkun rekstrarkostnaðar og betri lánskjörum.“ Ég reyni að gera það sem sjaldnast að ýta undir og auka útgjöld ríkissjóðs í þeim störfum sem ég sinni hér á Alþingi en miðað við það hvernig stuðningi við bændur hefur verið háttað núna um nokkuð langa hríð þá erum við komin í stórkostlegar skuld við þann hóp sem sinnir þeim mikilvægu verkefnum að sinna matvælaframleiðslu hér heima. Þessi tillaga er algjört lykilatriði í því að landbúnaður, innlend matvælaframleiðsla, fái þá viðspyrnu sem nauðsynleg er landi og þjóð til heilla.

5. liður: „Gerð verði áætlun um hvernig stórefla megi nám tengt landbúnaði á öllum námsstigum.“ Þetta held ég að verði til mikilla bóta fyrir innlenda matvælaframleiðslu og gerir okkur kleift að nýta þau óendanlegu tækifæri sem í henni felast.

Sjöunda atriðið nefndi ég áðan, að tollasamningi landbúnaðarráðherra frá 17. september 2015 við Evrópusambandið verði sagt upp nú þegar eða óskað endurskoðunar á honum, m.a. með tilliti til útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Áfram heldur í 8. lið: „Innflutningur á ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum matvælum verði stöðvaður vegna sérstöðu landsins og mikilvægis matvæla- og fæðuöryggis.“ Þetta er nú mál sem við þingmenn Miðflokksins tókum töluverðan slag um á síðasta kjörtímabili en urðum undir þar, því miður. Það er ekki of seint að snúa við af þessari vondu leið sem þar var vörðuð og við þingmenn verðum að standa í lappirnar og verja svona augljósa innlenda hagsmuni eins og hreinleiki íslenskrar matvælaframleiðslu er.

9. liður: „Eftirlitskerfi með matvælaframleiðslu verði einfaldað og kostnaði við eftirlitið létt af greininni.“ Þetta er af sama meiði og svo margt sem við höndlum með hér inni á þingi. Það koma á færibandi reglur að miklu leyti frá Evrópusambandinu sem við innleiðum án þess að nýta þær heimildir sem við höfum til aðlögunar og til að draga úr kostnaðarlegum þunga reglugerða sem koma á færibandinu frá Brussel. Við þekkjum öll þá umræðu að hér séum við iðulega kaþólskari en páfinn. Sambærilegar reglur, sama innleiðing á sömu gerð er skoðuð í einhverju Evrópusambandslandinu og hún er miklu mildari en hér hefur verið gert. Við verðum að hætta þessu rugli því sá kostnaður sem þetta fellir á innlenda matvælaframleiðslu getur ekki haft nein önnur áhrif en að hækka verð eða orsaka það að framleiðendur heltast úr lestinni vegna þess að rekstrarforsendur brestur.

12. liður: „Veittir verði styrkir til rannsókna og framleiðslu á innlendu eldsneyti fyrir landbúnaðartæki, m.a. til að auka sjálfbærni.“ Þetta er sjálfsagt í allri þeirri umræðu sem við eigum nú um orkuskipti, að styðja við þetta verði skoðað og sjá hvaða hagkvæmu lausnir eru færar. En í þessu samhengi verðum við alltaf að hafa í huga að orkuskiptin þurfa að eiga sér stað á hagrænum forsendum. Það er vit í því fyrir okkur Íslendinga að framleiða okkar eigin orku. Áhrifin á loftslagsmálin í hnattrænum skilningi eru sáralítil þegar á heildina er litið en það getur haft umtalsverð áhrif fyrir okkur hér heima ef okkur tekst að færa kerfið til þess vegar að við nýtum innlenda orku í meira mæli en nú er og við eigum að gera það á þeim forsendum. Þannig komumst við áfram með þetta. Við eigum að gera þetta vegna þess að það er skynsamlegt efnahagslega fyrir okkur Íslendinga.

13. liður: „Kostnaður við flutning allra aðfanga og afurða sem tengjast matvælaframleiðslukeðjunni verði að fullu jafnaður án þess að hann bitni á greininni og þar með verðlagningu framleiðslunnar.“ Við þekkjum ýmis dæmi sambærileg úr öðrum geirum og teljum að þetta sé nauðsynlegt atriði til að vinna áfram.

Af handahófi tek ég hér 18. lið: „Stutt verði við hrossarækt og hún efld til að nýta þau tækifæri sem þar liggja, m.a. til aukins útflutnings á lifandi hrossum.“

20. liður: „Gerðir verði langtímasamningar við bændur þar sem tekið verði tillit til þjóðhagslegs mikilvægis atvinnugreinarinnar, starfskjara matvælaframleiðenda og framboðs á heilnæmum afurðum.“

21. liður: „Skóg- og skjólbeltarækt verði stóraukin svo að nýta megi tækifærin sem liggja í skógrækt.“

22. liður: „Afhendingaröryggi raforku verði tryggt svo að hætta á röskun í framleiðslu matvæla um land allt verði sem minnst.“ Við þurfum ekki annað en að fara nokkra daga aftur, þá var hálft landið rafmagnslaust í tvo tíma, staða sem maður hefði hreinlega ekki trúað að gæti komið upp eftir aðventuóveðrið í lok árs 2019 og allar þær aðgerðir sem hefur verið flaggað og hefur verið gengið til síðan þá. En þetta er engu að síður staðan og veldur ekki bara tjóni í matvælaframleiðslu, þetta veldur auðvitað tjóni í öllum öðrum geirum sem reiða sig á trygga raforku.

Punkturinn með að nefna hér nokkur atriði úr þingsályktunartillögunni af handahófi er að draga fram að þetta er heildstæð stefna þar sem hvert atriði styður við annað. Að þessum 24 atriðum innleiddum þá eigi innlend matvælaframleiðsla að vera á allt öðrum stað heldur en hún hefur verið undanfarin misseri og ár og í stakk búin til að fara í meiri háttar sókn með það sem ég tel vera besta hráefni í heimi, hvort sem við horfum til íslenskra kjötframleiðenda, grænmetisframleiðenda, íslenska fisksins, hvaðeina. Alls staðar erum við með besta mögulega hráefni og við eigum að búa til öll þau verðmæti sem við getum úr því. Við sjáum nú bara afleidda þætti sem tengjast öflugri matvælaframleiðslu og nýtingu auðlinda, afleidd áhrif, eins og tæknifyrirtækin, ég nefni t.d. Kerecis á Ísafirði. Allt er þetta af því að við höfum lag á að sækja og nýta þær auðlindir sem eru fyrir framan okkur, hvort sem er á láði eða legi, og við eigum að halda því áfram. En við verðum að forma starfsumhverfi þessara greina þannig að þær geti spyrnt við fótum. Við þurfum ekki annað en að horfa til innlendrar kjötframleiðslu þar sem við erum nú með matvælaráðherra sem kemur sér undan því að svara þeirri spurningu hvort hún í störfum sínum vilji styðja við aukna kjötframleiðslu á Íslandi. Það að ráðherra komi sér undan slíkri skýrri spurningu getur ekki þýtt neitt annað en að ráðherra ætli ekki að styðja við aukna kjötframleiðslu hér heima. Hvert er markmiðið með því sem ætlað er að ná fram? Það er einhver sýndarmennska í einhverju grænu bókhaldi, hvar sem það kann að liggja. Auðvitað mun þetta ekki hafa nein megináhrif á neyslu. Það verður bara flutt meira inn. Það er það eina sem mun gerast. Verð mun hækka, það verður flutt meira inn og rekstrarskilyrði þeirra sem stunda þessa heilnæmu framleiðslu verða verri en annars væri.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar er sótt að innlendri matvælaframleiðslu úr mörgum áttum og við verðum að hrinda þeim árásum, hvort sem þær felast í regluverki sem kemur á færibandinu í Brussel eða gjörðum ráðamanna hér heima, sem er alveg ótrúlegt. Ég trúi því ekki til að mynda að íslensk kjötframleiðsla hafi nokkurn tímann fundið sig í þeirri stöðu að yfir málaflokknum sé ráðherra sem styður ekki við innlenda kjötframleiðslu. Þetta hefði verið óhugsandi fyrir stuttu síðan. Þessir þrír flokkar sem hafa talið sig í gegnum tíðina vera stuðningsmenn öflugrar landsbyggðar, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð — það er alveg makalaust að íslenskir bændur geti ekki treyst þessu samansafni flokka. En það er staðan eins og hún er núna. Það sem við viljum gera með þessari þingsályktunartillögu er að formfesta og koma í gegnum þingið þingsályktun sem færir íslenska matvælaframleiðslu, sérstaklega landbúnaðinn, úr þeirri vörn sem landbúnaðurinn hefur verið í undanfarin ár yfir í öfluga sókn því að í því felast gríðarleg verðmæti fyrir land og þjóð.