Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Á hverju ári leggja þúsundir sjálfboðaliða hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg fram ómælda vinnu án endurgjalds fyrir samfélagið. Við sáum þetta glöggt þegar gos hófst á Reykjanesi og nú um síðustu helgi þegar óveður gekk yfir landið. Björgunarsveitir eru kallaðar út til leitar, björgunar og aðstoðar á neyðarstund að meðaltali þrisvar sinnum á dag og með auknum fjölda ferðamanna og fólksfjölgun á landinu fer þörfin sífellt vaxandi fyrir þetta óeigingjarna starf. Undanfarin ár hefur hins vegar reynst erfiðara fyrir björgunarsveitir og önnur samtök sem vinna í þágu almannaheilla að afla nýrra sjálfboðaliða sem og að halda sjálfboðaliðum virkum. Ég ákvað því að leggja fram frumvarp sem á sér fyrirmynd frá Bandaríkjunum en í því er lagt til að þeir einstaklingar sem sinna þessu sjálfboðastarfi til almannaheilla skuli eiga rétt á tekjuskattsafslætti sem veittur er miðað við hlutfallslega þátttöku sjálfboðaliðanna í björgunarsveitastarfinu. Kostnaður sjálfboðaliða við kaup á björgunarbúnaði og sérmerktum fatnaði hefur sífellt hækkað. Frumvarpinu er því einnig ætlað að koma til móts við þennan kostnað sjálfboðaliða með endurgreiðslu virðisaukaskatts til kaupa á viðurkenndum björgunarbúnaði. Hvort tveggja er ætlað til þess að hvetja fólk til að taka aukinn þátt í þessu sjálfboðaliðastarfi, sjálfboðastarfi sem tryggir mikilvægan stuðning við samfélagið þegar neyðin er mest. Það er von mín að vel sé tekið á móti þessu frumvarpi á Alþingi og það njóti stuðnings þingmanna úr öllum flokkum sem kunna að meta hið óeigingjarna og mikilvæga starf sem björgunarsveitir inna af hendi fyrir samfélagið.