Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

sveigjanleg tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi.

214. mál
[13:25]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég les rökstuðninginn sem hv. þingmaður var að lesa hér upp, um að laga löggjöfina að þróun í jafnréttismálum og stöðu kynjanna, á þann veg að þá lá einmitt undir að orðið væri tímabært að skipta jafnt, að þróunin væri orðin þannig og við gætum gert það án þess að allt færi á annan endann í samfélaginu. Það kann að vera að ég sé að mislesa greinargerðina en það er það fyrsta sem kemur upp í huga minn þegar ég hugsa til baka til þess þegar þessar breytingar voru gerðar. Jöfn skipting er best fyrir barnið og best fyrir samfélagið. Það er auðvitað ekki alltaf hægt og fyrir því eru yfirleitt alltaf efnahagslegar ástæður. Þess vegna hlýtur það að vera hlutverk hins opinbera að gera báðum foreldrum kleift að fara í fæðingarorlof. Þess vegna þurfum við að hækka þakið og við þurfum að hafa stuðning við einstæða foreldra með þeim hætti að þau geti nýtt þennan rétt sinn til fulls.

Mig grunar að við verðum kannski ekki sammála hér í fyrri umræðu um þessa þingsályktunartillögu, ég og hv. þm. Bergþór Ólason, en mér finnst mjög mikilvægt að við ræðum þetta mál og þess vegna fagna ég þessari tillögu. Þó að ég sé ekki sammála henni þá fagna ég því að hún sé fram komin af því að það er mjög mikilvægt að halda þessari umræðu vakandi, sérstaklega hér á þingi, efla skilning okkar og líka bara rannsóknir á því hvernig fæðingarorlofið virkar. Ég held að það hafi bara dottið upp úr hv. þingmanni að tala um frí en við vitum öll að fæðingarorlof er ekki frí.