Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

meðferð einkamála o.fl.

278. mál
[17:15]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Dómstólar ákveða lengd gæsluvarðhalds. Ákæruvaldið fer og óskar eftir gæsluvarðhaldi í einhvern ákveðinn tíma og það er svo dómstóla að meta hvort nauðsynlegt sé að fá allan þann tíma. Ef nauðsynlegt þykir að framlengja tímann þarf ákæruvaldið að fara og óska eftir framlengingu. Ég held að ákæruvaldinu sé engin vorkunn að mæta bara tímanlega til að óska framlengingar. Ef gæsluvarðhaldstímar eru skemmri á Íslandi en annars staðar þá er það mögulega vegna þess að ákæruvaldið er ekki að kæra úrskurð um gæsluvarðhald til æðra dómstigs til að fá rýmri tíma í hvert skipti. Hámarkstíminn er 12 vikur og um það hefur verið fjallað hjá lögreglunni að mögulega sé það of knappur tími í rannsókn mjög flókinna mála. En að gefa eitthvert leyfi til að sjúska með þennan þrönga tímaramma sem er úrskurðaður í hvert sinn held ég að bjóði hættunni heim á mjög frjálslegu mati á því hvað teljist hæfilegur umhugsunartími fyrir dómara í hvert skipti. Við þurfum að hafa þennan frest alveg skýran því annars erum við bara að bjóða þeirri hættu heim að ákæruvaldið mæti á síðustu stundu með beiðni um framlengingu og dómarinn geti tekið allan þann tíma sem honum hentar af því að ekkert er um það í lögunum. Við hljótum að verða að tryggja að við séum ekki að sjúska svona með þennan grundvallarrétt fólks, að það sé ekki svipt frelsi að ástæðulausu.