Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

uppbygging geðdeilda.

98. mál
[13:16]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Hvað varðar geðheilsuteymin þá minntist ég aðeins á þau í umræðu fyrr í dag varðandi heilsugæsluna. Geðheilsuteymin eru góð í sjálfu sér og væru frábær viðbót ef um viðbót væri að ræða. Vandinn við geðheilsuteymin er hins vegar að okkur skortir starfsfólk. Það sem gerðist við það að geðheilsuteymunum var komið á hringinn í kringum landið var að þau í rauninni sópuðu að sér fagfólki sem áður hafði starfað á Landspítalanum. Af hverju gerist það? Jú, vegna þess að geðheilsuteymin starfa bara á hefðbundnum skrifstofutíma en ekki á vöktum og þannig er vinnutíminn í rauninni mun fjölskylduvænni og heilsusamlegri, en þeir sem eru í bráðri neyð geta þá ekki nýtt sér það. Það sama má segja um bráðadeild geðsviðs, og tek ég undir það sem hv. þingmaður sagði varðandi viðhorf til þessa málaflokks: Harkaðu af þér. Ef þú færð skurð, snýrð ökklann eða fótbrotnar, þá ferðu á bráðadeild sjúkrahúsanna, þar sem þær er að finna, en sértu í bráðri neyð vegna geðrænna áskorana er bráðadeildin bara opin á hefðbundnum skrifstofutíma og það má alveg spyrja sig hvort það sé eðlilegt. Við erum ekki með slíkan opnunartíma á bráðadeildum almennt.