Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir (Sf):

Herra forseti. Í fréttum í gær var sagt frá því að 13 hross í Borgarfirði hefðu verið aflífuð af Matvælastofnun vegna vanrækslu. Íbúar á svæðinu höfðu ítrekað kvartað yfir slæmum aðbúnaði sem endaði með fyrrgreindum afleiðingum. Af og til berast sambærilegar fréttir af hræðilegum atvikum, um slæman aðbúnað húsdýra, misþyrmingar og vanrækslu. Viðbrögðin eru mikil í samfélaginu og maður sér að það skiptir máli að vel sé hugsað um dýr, og það er góð tilfinning.

Það er alveg skýrt í mínum huga að við þurfum að fara í kerfisbreytingar til að tryggja velferð dýra á Íslandi. Það er ótækt og brýtur niður trú almennings á kerfinu þegar ítrekað er bent á vanrækslu og slæman aðbúnað dýra en ekkert gerist. Ef Matvælastofnun þarf rýmri heimildir til að koma í óboðnar eftirlitsferðir og grípa til aðgerða þurfum við að laga það. Miðað við þær fregnir sem okkur berast af vanrækslu dýra í íslensku samfélagi þá virðist of seint gripið inn í með þeim afleiðingum sem við sáum í gær að 13 dýr voru tekin af lífi eftir að hafa lifað við hræðilegan aðbúnað.

Herra forseti. Við megum ekki fórna dýravelferð á altari skrifræðis.