Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Istanbúl-samningurinn, alþjóðlegur samningur um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, var fullgiltur á Íslandi árið 2018. Samningurinn er ekki síst formleg staðfesting á því, alþjóðleg, að konur séu beittar ofbeldi fyrir það eitt að vera konur, að kynbundið ofbeldi sé til. Í samningnum er að finna sérstakt ákvæði um kynbundnar hælisumsóknir. Þar segir að aðilum Istanbúl-samningsins beri að tryggja að kynbundið ofbeldi teljist til ofsókna í skilningi samnings um réttarstöðu flóttafólks og að kynjasjónarmiða sé gætt í móttöku og umsóknarferli fyrir hælisleitendur. Með öðrum orðum ber íslenska ríkinu að tryggja að konur á flótta undan kynbundnu ofbeldi hljóti vernd gegn slíkum ofsóknum.

En svo virðist sem við séum að bregðast konum á flótta undan kynbundnu ofbeldi. Í nýútkominni meistararitgerð í lögfræði er staða mála á Íslandi með tilliti til Istanbúl-samningsins könnuð til hlítar og niðurstaðan er því miður ekki falleg. Þrátt fyrir að Istanbúl-samningurinn hafi verið fullgiltur af Íslands hálfu virðist sem íslensk stjórnvöld líti ekki svo á að ákvæði Istanbúl-samningsins gildi um konur á flótta. Í jafnréttisparadísinni Íslandi getur það ekki talist ásættanlegt að konur sem flúið hafa gróft og jafnvel viðvarandi ofbeldi séu ekki taldar hafa orðið fyrir kynbundnum ofsóknum og séu ekki í þörf fyrir vernd þegar fyrir liggur að stjórnvöld í þeim ríkjum sem þær hafa flúið hafa sýnt að þau séu annaðhvort ekki viljug eða þess megnug að veita þeim vernd.

Það er alls ekki nóg að kvitta undir mannréttindasamninga og láta þá einungis gilda um sumt fólk og ekki annað. Konur á flótta eru líka menn.