Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Spurningin snýr að tímabindingu veiðiheimilda til útgerða. Ég hef þá skoðun að það kerfi sem við erum með í sjávarútvegi í dag sé í grunninn gott kerfi. Það er litið til okkar og þess kerfis sem við höfum sett í kringum okkar mikilvægu grein, sjávarútveginn, frá öðrum ríkjum þar sem staða sjávarútvegs er með allt öðrum hætti, þar sem veiðistýring er lítil eða öðruvísi, ósjálfbærni, fiskstofnar ofveiddir og í mörgum tilfellum ríkisstyrkt, ólíkt því sem gerist hér þar sem sjávarútvegur skilar ríkissjóði arði.

Að þessu sögðu er hins vegar ljóst að ekkert kerfi er fullkomið og kvótakerfið er þar engin undantekning. Við eigum á hverjum tíma að aðlaga kerfið að breyttu samfélagi og breyttum tíðaranda. Við erum mjög reglulega að breyta kerfinu hér á Alþingi, mismikið, en heildarendurskoðun hefur ekki farið fram eða bylting á kerfinu. Það er mín skoðun að byltingar á okkar kerfum eigum við ekki að gera nema að mjög ígrunduðu máli. Það á einnig við um þetta mál. Ég hef talað fyrir því hér að það þurfi að nást betri sátt í sjávarútvegsmálum í samfélaginu. Atvinnugreinin hefur líka talað í þá átt, en sátt snýst ekki um það eðli málsins samkvæmt að kerfinu verði einhliða breytt í aðra hvora áttina. Sáttin felst í því að finna leið sem brúar bil beggja.

Því bind ég vonir við þá vinnu sem við málshefjandi hér stöndum í og hefur verið sett í gang að frumkvæði hæstv. matvælaráðherra Svandísar Svavarsdóttur og rímar það sömuleiðis við það sem kemur fram í sáttmála ríkisstjórnarinnar um að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi.

Í þessari umræðu vil ég þó minna á að árið 2013 setti þáverandi sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, af stað starfshóp til að vinna að sáttatillögu í sjávarútvegi sem byggði á vinnu sáttanefndar (Forseti hringir.) frá 2010 þar sem ein af tillögunum var að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun. (Forseti hringir.) Um er að ræða svipaða hugmynd og hér er uppi. Það er ákall um breytingar og sátt og við verðum að hlusta á það ákall. (Forseti hringir.) Með hvaða hætti get ég ekki gert fullyrt hér en þá leið sem hefur verið nefnd þarf að skoða í þeirri vinnu sem nú er í gangi. Ég bið forseta afsökunar á að hafa farið yfir tímann.