Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eftir Covid og nú eftir að stríð hefur brotist út í Evrópu og efnahagsþrengingar hafa orðið víða í heiminum sjáum við að víða er vegið að réttindum kvenna. Við sjáum það mjög hratt að þegar efnahagslegt svigrúm er minna þá þrengist líka það rými og það svigrúm sem konur hafa til að athafna sig í.

Á sama tíma hefur því miður einnig það vaxið sem ég vil kalla ákveðna óbilgirni í því hvernig við tölum um fólk eða hvernig er talað um fólk. Ég held að þetta sé hættuleg þróun og eitthvað sem við stjórnmálamenn eigum að vera vakandi fyrir alls staðar þar sem við erum í okkar vinnu, hvort sem er hér á Íslandi eða í þeim alþjóðlegu störfum sem við tökum þátt í. Það er vegið að réttindum kvenna víða um heim, eins og ég minntist á, en einnig að réttindum hinsegin fólks. Við höfum hreinlega séð bakslag í umræðunni hér á Íslandi. Eitt af því sem ég hef verið stolt af og finnst við hafa gert vel í utanríkismálum er að í utanríkisstefnu Íslands, þar á meðal í áherslu í þróunarsamvinnu, höfum við lagt áherslu á þessi mál; á réttindi kvenna og hinsegin fólks. Oft var þörf en nú er alveg gríðarlega mikil nauðsyn. Ég vil brýna okkur öll í því að alls staðar þar sem við tölum sem þingmenn ræðum við um þessi mál, höldum þeim á lofti og stöndum vörð um réttindi kvenna og annarra hópa sem eiga undir högg að sækja. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)