Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni, það er alveg réttmæt fyrirspurn frá honum hvað það varðar hvort þetta gæti falið í sér óhagræði fyrir einhvern ákveðinn hóp þeirra sem sækja þessa þjónustu. Ég tel svo ekki vera. En auðvitað verður þetta skoðað mun betur í nefndarvinnunni og umsagnaraðilar fengnir og gestir til að fara yfir þann þáttinn. Þetta verður allt vegið og metið í starfinu sem er fram undan innan nefndarinnar.

Það er náttúrlega alltaf, eins og við þekkjum, ákveðin pólitísk ákvörðun að flytja störf út á land. Í þessu tilfelli held ég að hægt sé að rökstyðja þá ákvörðun á mjög faglegum forsendum, bæði þegar kemur að menntunarstiginu, sem ég hef áður nefnt hér nokkrum sinnum, og því að Suðurnesin hafa alltaf orðið út undan þegar kemur að flutningi starfa út á land. Það er búið að gera mjög góða hluti víða í því að flytja störf út á land, ég nefni Sauðárkrók sem dæmi, og það hefur gefið góða raun.

Síðan er það þjónustustigið sem ég nefndi hér áðan. Þessi fjöldi sem kemur til landsins kemur allur í gegnum Keflavíkurflugvöll og þá er þjónustan á nærsvæðinu. Þetta er svo sem það sem ég rakti í minni ræðu og þetta eru meginatriðin í þessu. Vissulega verður þetta allt saman skoðað, t.d. hvernig þetta hefur áhrif á þá sem sækja þjónustuna og búa ekki á svæðinu eða dvelja þar. Þetta verður allt vegið og metið. En í heildina tel ég þetta vera mjög vænlegt fyrir stofnunina og fyrir þá sem nota þjónustuna og ekki síst fyrir Reykjanesbæ.