Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:19]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Það er virðingarvert að þingmenn leggi til flutning stofnana út á land enda viljum við að landið sé allt í byggð og að ríkið dreifi störfum eins og frekast er unnt. Hér leggja þingmenn Sjálfstæðisflokksins slíkt til og kemur ýmislegt fram í umræddri tillögu sem vert er að rýna. Fram kemur í greinargerð, með leyfi forseta:

„Útlendingastofnun er ein af undirstofnunum dómsmálaráðuneytisins og starfar samkvæmt löggjöf um málefni útlendinga. Umfangsmesti þáttur í starfsemi Útlendingastofnunar er útgáfa dvalarleyfa, hvort sem um er að ræða dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku eða t.d. fjölskyldusameiningar, námsvistar eða vistráðningar, og afgreiðsla umsókna um alþjóðlega vernd og umsókna um íslenskan ríkisborgararétt.“

Mikilvægt er að taka fram að umsjón með þjónustu hælisleitenda liggur ekki lengur hjá þessari stofnun. Sá málaflokkur hefur verið færður til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og er því á hendi Vinnumálastofnunar. Það hefur komið fram í umræðum hér á undan og því vildi ég einnig koma inn á þann punkt en samkvæmt flutningsmönnum er mikill meiri hluti starfa hjá stofnuninni sérfræðistörf sem krefjast háskólamenntunar og með flutningi stofnunarinnar yrði þeim fjölgað og þar með yrði hlutfall háskólamenntaðra af svæðinu aukið.

Einnig er sérstakt að tekið er fram í tillögunni að 9% íbúa bæjarins séu af erlendum uppruna en ég tel mig knúinn til að leiðrétta flutningsmenn og félaga mína vegna þess að það hlutfall, sú prósenta, er nær 30% í dag. Einnig hefur sem betur fer atvinnuleysi minnkað en vitaskuld hefur það verið þannig, og það er rétt hjá flutningsmönnum, frú forseti, að atvinnuleysi hefur hlutfallslega venjulega verið hærra á Suðurnesjum en annars staðar á landinu.

Það hefur verið gríðarleg fólksfjölgun í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum þannig að margir telja mjög ákjósanlegt að flytja til Reykjanesbæjar. Auðvitað er ég sammála því að fjölbreyttari atvinnutækifæri eru nauðsynleg og vil ég því líka taka fram að fjöldi manns sækir atvinnu á höfuðborgarsvæðið og einnig aka margir Reykjanesbrautina til að sækja vinnu á Suðurnesjum en búa á höfuðborgarsvæðinu.

Það kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir, virðulegi forseti, en enginn af æðstu stjórnendum stofnana ríkisins á Suðurnesjum býr á svæðinu. Vissulega þykir mér það miður en samkvæmt lögum er ekki hægt að krefjast þess að búseta sé á þeim stað þar sem vinnan fer fram. Ég velti fyrir mér hvort ekki geti verið erfitt að tryggja að starfsmenn færi sig á svæðið þó svo það væri vissulega jákvætt, enda best að búa í Reykjanesbæ, svo ég tali út frá sjálfum mér. Ég fagna því frumkvæðinu en getur verið að við séum að nálgast hlutina á rangan hátt, virðulegi forseti, ef markmiðið er að fjölga háskólamenntuðum störfum í sveitarfélaginu sérstaklega? Hvað á ég við með þessari vangaveltu? Jú, það er góðra gjalda vert að leggja til flutning en ég kannast ekki við að heimamenn hafi kallað sérstaklega eftir flutningi þessarar stofnunar. Fram hefur komið í umræðunni að haft hefur verið samband við embættismenn og það er vissulega jákvætt en ég heyri það á heimamönnum að meira þarf til, meira samráð, meiri kynningu, og ég er ekki í vafa um að flutningsmenn muni sinna því á næstu dögum er málið fer til nefndar. Það kom m.a. fram á síðasta bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ að kjörnir fulltrúar, samkvæmt þeim fundi, hafa ekki fengið neina kynningu á fyrirhuguðum flutningi ef málið gengur í gegn.

Það er mín reynsla að forgangsatriði íbúa á Suðurnesjum þessa dagana, og um langt skeið, snúist miklu frekar um að tryggja þeim stofnunum ríkisins sem nú þegar eru til staðar á svæðinu fjármagn þannig að viðunandi þjónusta sé veitt þar. Má þar nefna HSS, FS, löggæsluna, hjúkrunarheimili og tvöföldun Reykjanesbrautar við Hvassahraun, svo eitthvað sé nefnt. Samt verðum við að leggja ofuráherslu á það að vera samstiga og því fagna ég fram kominni tillögu. Hún mun eflaust fá góða umræðu í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem ég sit og ég hlakka til þeirrar vinnu. Ég vil líka ítreka það að mér finnst góðra gjalda vert að leggja til flutning stofnunar en mér finnst markmiðin ekki alveg nógu skýr. Kannski má skýra þau betur í vinnslu umræddrar tillögu. Ríkið hefur nefnilega valið m.a. að þjónusta stóran hóp hælisleitenda í Reykjanesbæ, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, án þess að sérstaklega sé haft samráð við sveitarfélagið.

Hér hefur Vinnumálastofnun verið nefnd og það gæti verið vænlegra að flytja Vinnumálastofnun og ekkert útilokar að báðar stofnanirnar komi til Reykjanesbæjar, því myndi ég að sjálfsögðu fagna sérstaklega. Ég sem íbúi í bæjarfélaginu kannast vel við baráttu kjörinna fulltrúa og íbúa fyrir því að flytja stofnun á vegum ríkisins. Þá kemur að sjálfsögðu upp í hugann, og ætti kannski ekki að koma á óvart, Landhelgisgæslan. Hér á þingi hefur verið borin upp tillaga á 139. þingi, 140. þingi, 143. þingi, 144. þingi, 145. þingi, 146. löggjafarþingi, og síðan var einnig flutt ja, lítillega breytt þingsályktunartillaga um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja á nýafstöðnu þingi. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur bókað um málið ásamt bæjarfélaginu sjálfu.

Nú geta margir sagt að ég vilji hitt en ekki þetta. Já, það er kannski rétt, en ég er þeirrar skoðunar að flutningur Gæslunnar sé bæði miklu eðlilegri, þar sem bæði hefur verið ákveðið að skip Gæslunnar sé staðsett í Njarðvíkurhöfn, af núverandi dómsmálaráðherra, og á hann þakkir skildar fyrir það, og einnig vegna þess að starfsemi þeirrar stofnunar er umtalsverð á svæðinu. Þó verður að geta þess að aðalskrifstofan er enn í Reykjavík. Því segi ég, herra forseti: Kannski væri ráð að byrja á að færa stofnun sem sannarlega mun skapa mikið magn af afleiddum störfum og einnig nýta þá innviði sem til eru til hagsbóta fyrir starfsemi stofnunarinnar sjálfrar. Að sjálfsögðu vil ég taka fram að eitt útilokar ekki annað í þessum efnum.

Málefni útlendinga eru ört stækkandi málaflokkur eins og fram kom hjá flutningsmanni. Allar líkur eru á að mikil fjölgun verði í hópi flóttamanna sem hingað leita á næstu árum. Í umræðunni hefur verið nefnt að jafnvel komi til greina að settar verði upp móttökubúðir fyrir flóttamenn í Reykjanesbæ. Ég kannast ekki við slíkt og veit ekki til þess að það sé á dagskrá en því hefur verið fleygt fram í umræðunni. Það myndi kalla á gríðarlega mikið samráð við kjörna fulltrúa og heimamenn. Eins undarlegt og það hljómar hafa sveitarfélögin ekkert um það að segja ef yfirvöld ákveða að sinna umræddum málaflokki innan þeirra bæjarmarka. Finnst mér það mjög sérstakt og vert að taka fram. Því er svo mikilvægt að ríkið eigi mjög gott samráð við sveitarfélögin í landinu um úrræði til lengri tíma. Ég vil því hvetja flutningsmenn, og mun taka þátt í því sjálfur, til að eiga fundi með heimamönnum til að ræða mögulegan flutning stofnana ríkisins á svæðið. Þannig væri hægt að tryggja hámarksárangur fyrir íbúa í Reykjanesbæ og gefa þeim tækifæri á að segja sína skoðun.

Framsóknarflokkurinn hefur haft forystu um að flytja störf á landsbyggðina. Því fagna ég tillögunni þó að ég telji vænlegra að vinna málið í betri samvinnu við heimamenn áður en slík ákvörðun verður tekin og vænti ég þess að sú umræða og sú vinna fari fram á næstu dögum, bæði innan allsherjar- og menntamálanefndar og hjá einstaka flutningsmönnum, þingmönnum í Suðurkjördæmi.