Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:27]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans fínu ræðu hér. Ég vil geta þess fyrir þá sem það ekki vita að við höfum báðir verið kjörnir sveitarstjórnarmenn í Reykjanesbæ og þekkjum kannski svæðið býsna vel. Ég hef jafnframt verið formaður stéttarfélags í sveitarfélaginu í tvo áratugi. Varðandi atvinnuleysi á svæðinu langar mig að geta þess að svæðið sem slíkt hefur, vegna þeirrar starfsemi sem hefur orðið til í kringum flugstöðina, búið til mikið af hlutastörfum. Við kölluðum þetta alltaf stubbastörf þar sem fólk kom og vann einhverja stubba, fór heim og kom svo aftur og vann aðra stubba. Fólk sem hefur verið í slíkri vinnu hefur getað skráð sig atvinnulaust að hluta til. Það skýrir kannski að skráð atvinnuleysi á Suðurnesjum verður meira fyrir vikið. Fólk er í hlutastarfi, hefur kannski alveg þokkaleg laun af því að það er með vaktaálagsgreiðslur ofan á grunnkaupið en þó þannig að það nær ekki fullu starfi. Það hefur þá þýðingu og býr til þann rétt að fólk getur skráð sig atvinnulaust að hluta. Þegar þú ert skráður atvinnulaus að hluta þá ertu skráður atvinnulaus. Það getur skýrt meira atvinnuleysi á Suðurnesjum, væntanlega bæði í Suðurnesjabæ og Reykjanesbæ, umfram önnur sveitarfélög.

En mig langaði bara, af því að hér er talað um að það séu 80 og eitthvað manns sem vinna hjá Útlendingastofnun: Sér hv. þingmaður fyrir sér að við getum lagað atvinnustigið með flutningi Útlendingastofnunar inn á svæðið?