Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:34]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Ég þakka þingmanninum andsvarið. Það er alveg rétt að samráð skiptir gríðarlega miklu máli. Flutningsmaður fór hér yfir það að hann hafi haft samband við fólk sem hefur góða þekkingu á Suðurnesjunum og ég efast ekkert um að hann eigi eftir að halda því áfram við ferli þessarar tillögu.

Það tók langan tíma, eins og þingmaðurinn nefnir, að ræða öryggisvistun og þann möguleika. Sú kynning kom frá ráðuneyti félagsmála á þeim tíma og fór alla leið í gegnum bæjarstjórn. Það er svo mikilvægt að geta átt slíkt samráð við ríkið og að það ríki traust um slíkt. En á endanum eru kjörnir fulltrúar auðvitað bundnir af fólkinu sem þeir standa fyrir. Nú hefur Reykjanesbær tekið ákvörðun um að þetta henti ekki. Meginástæðan er að þeirra sögn skortur á fjármagni til að tryggja eðlilega þjónustu á svæðinu nú þegar. Þetta vitum við þingmenn Suðurkjördæmis vel og erum að leggja hönd á plóg þar, og þeir sem á undan mér hafa verið hafa eflaust gert það líka.

Það er bara mjög eðlilegt að bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ og annars staðar á Suðurnesjum efist um það, ef ríkisstofnanirnar sem nú þegar eru á svæðinu eru að berjast í bökkum, að komi fleiri ríkisstofnanir verði þær ekki einnig af fjármagni við niðurskurð sem geti þar af leiðandi að einhverju leyti haft áhrif á samfélagið og ekki í þá átt sem ætlast var til í upphafi.