Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:36]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er nú gaman að sjá að hér eru nánast eingöngu Suðurnesjamenn í þingsalnum. Við erum næstum því á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ með tvo fyrrverandi bæjarfulltrúa. Ég vil nú byrja á því að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir þessa framgöngu, að leiða þetta mál. Ég fagna því mjög að við ræðum það hér. Ég var kannski hreinlega ekki undirbúinn fyrir þá umræðu núna að þurfa að berjast fyrir þessari þingsályktunartillögu, og alls ekki við góða og gegna heimamenn sem hafa setið í bæjarstjórn lengur en elstu menn muna. Hérna eru líka fyrrverandi bæjarfulltrúar úr nágrannabæjarfélögunum sem þekkja ágætlega til þessara mála.

Mér finnst nefnilega mikilvægt fyrir samfélagið okkar að við tölum þessi mál og þessa tillögu upp. Það er auðvitað hægt að finna eitthvað að henni eins og mörgu öðru sem við erum að gera hér í þinginu, einhverjar brotalamir sem betur hefðu mátt fara. Þannig er það nú bara og maður þekkir það svo sem að keyra hér á veggi fram og til baka. En mér finnst að þegar mál eins og þetta kemur upp á borðið sé eðlilegt að tveir ágætir fyrrverandi bæjarfulltrúar tali um samráð. Ég er sammála því. En það er líka algerlega óvíst hvað verður um þessa tillögu. Við þekkjum það hér að við leggjum oft mikla vinnu í tillögur og svo kemur ekkert út úr því. Ég held það sé mjög mikilvægt að það samráð fari fram á vegum nefndarinnar sem mun taka við þessari góðu tillögu og ræða hana.

Ég hræðist ekki að við séum að fá einhvern 80 manna vinnustað suður eftir. Ég vil minna okkur á það núna þegar farþegafjöldi á Keflavíkurflugvelli er upp í loft — fer úr 5 milljónum í 6 milljónir á þessu ári, 6 milljónum í 7 á næsta ári, síðan úr 7 milljónum í 8 og loks í 10 milljónir eftir örfá ár, sem er hinum megin við hornið — að við hverja milljón bætast við 1.000 starfsmenn á Keflavíkurflugvelli, eitt þúsund. Við skulum nú ekki alveg detta á hliðina þótt við séum að tala um 86 manns sem þurfa að keyra brautina í vinnuna af því ég held að þeir muni sjá fegurðina í því að búa suður frá mjög fljótlega.

En ég tek undir það sem hér hefur komið fram, það er auðvitað fyrir neðan allar hellur hversu margir yfirmenn á flugvellinum og sem vinna hjá sveitarfélögunum okkar búa ekki þar. Það er eðlilegt að þeir geti ekki allir búið innan sveitarfélagamarka á svæðinu en að þeir skuli meira og minna allir keyra úr Reykjavík er náttúrlega bara sérstakt mál fyrir okkur. En ég held sérstaklega að við sem erum staddir í salnum núna eigum að taka þessu fagnandi. Við eigum að sjá birtuna í þessu máli og þau tækifæri sem það felur í sér, ekki tala þetta niður og segja að þjónustan líði fyrir það og annað slíkt. Það eru fleiri staðir en Reykjavík sem geta boðið upp á þjónustu og það er allt til þess suður frá að bjóða upp á góða þjónustu. Ég vil bara minna á að við ætlum okkur, og það er stefna sveitarfélaga þarna suður frá, að byggja upp sérstaka flugvallarborg með hundruðum fyrirtækja sem tengjast Helguvík og flugvellinum. Þetta er einstök staða á Íslandi. Þetta er einstök staða í Norðurhöfum, að á einum stað sé alþjóðaflugvöllur og höfn með 11–12 m dýpi fyrir skip af öllum stærðum. Þetta er miðstöð norðursjávarslóða sem hér eru ræddar á Arctic Circle reglulega og við eigum við að gera okkur gildandi í þessu. Við eigum ekki að verja það að starfsemi sem þegar er á höfuðborgarsvæðinu geti ekki komið suður eftir. Það þarf auðvitað að fara mjög varlega í það að flytja alla starfsemi. Við vitum að sumt af því sem við höfum gert hefur ekki alltaf lukkast vel og þess vegna skiptir líka mjög miklu máli, eins og hér hefur komið fram í máli hv. þingmanna, að það verði farið vel yfir þessi mál og þetta allt skoðað frá a til ö, bæði hvað varðar sérfræðinga og þá sem hugsa sér að geta unnið þarna áfram ef af flutningi verður. Þetta mun taka langan tíma og hv. þingmenn þekkja það eins og ég að ef þetta verður ekki klárað á þessu þingi þá þarf að byrja upp á nýtt og málin þokast lítið áfram.

Í þessu máli vil ég bara minna á, og þetta er ekki mjög rafmagnsfrekt mál, að það er endalaust verið að kalla eftir rafmagni á Suðurnesin. Við, og ég núna, höfum náttúrlega kallað eftir Suðurnesjalínu 2, að hún kæmi. Við verðum öll saman að beita okkur fyrir því. Við fengum ályktanir Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sendar í vikunni. Þar var ekki minnst á Suðurnesjalínu 2, ekki einu orði. Þetta er mikilvægasta málið okkar. Ef á að stækka flugvöllinn og halda áfram að keyra þarna upp þá þarf meira rafmagn. Það er verið að panta rafstöðvar sem framleiða 30 megavött með dísilorku fyrir Keflavíkurflugvöll og svæðið í kringum hann. 30 megavött framleidd með olíu í varaafl fyrir okkar svæði. Við eigum að berjast fyrir því að það þurfi ekki, berjast fyrir raforkuöryggi, berjast fyrir góðum, fjölbreyttum störfum og vera bjartsýn á framtíðina.