Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:45]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég ætlaði reyndar ekki að tala sérstaklega um útlendingamál undir þessum lið. Ég get þó tekið undir margt af því sem hér er sagt. Við sátum saman á fundi hjá lögreglustjóranum í Reykjanesbæ um daginn og heyrðum áhyggjur hans sem eru líka vegna þess hvernig er vaðið yfir þetta svæði. Ég er algerlega sammála því. Þess vegna hefur umræða verið um það í samfélaginu að það þurfi að gera einhverjar breytingar á þessu. Ég held að þær breytingar þurfi bara að koma fram og við getum þá rætt þær. Ég er algjörlega sammála því að uppbyggingarfasinn þarna suður frá hefði þurft að líta betur út en að þarna séu teknar blokkir undir hælisleitendur. Ég held að það hafi aldrei verið meiningin, enda held ég að þetta sé orðið miklu stærra vandamál en við reiknuðum með. Við þurfum líka að reyna að ræða það saman án þess að hlaupa alltaf út undan okkur og hafa sannleikann að leiðarljósi í því máli eins og öðrum.

En að heyra hv. þingmann — sem ræddi einmitt mál atvinnulífsins í gær og félagafrelsi, og var margt gott sem hann sagði þar — vera næstum því á móti atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Ég held að við eigum að stefna að því að skapa á Suðurnesjum fjölbreytt störf og mjög mörg sveitarfélög í kjördæmi okkar kalla eftir fleiri eggjum í körfuna. Við þekkjum það í sjávarbyggðunum þar sem hafa verið mjög einhliða störf og það hefur náttúrlega verið hjá okkur. Við sáum það í Covid þegar flugið stoppaði að það vantaði meiri fjölbreytileika í störfin. Ég held við ættum að reyna að vinna að því saman, og hvort það er Útlendingastofnun eða eitthvað annað — þetta er nú ekki eins og menn dragi bara mannakorn úr skál og lesi heldur þurfum við að taka það sem passar inn í okkar svæði, ég er líka sammála því.