Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:54]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur. Til hamingju með að vera komin hingað til okkar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það verði friður og ró um þessa starfsemi ef þetta verður. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fram fari vönduð vinna í því hvernig þetta verður gert, með hvaða hætti við munum flytja þessa stofnun verði af því. Við töluðum um Landhelgisgæsluna áðan. Þar hefur það gerst að hluti af starfseminni sem menn telja að eigi betur við í Reykjanesbæ og á Ásbrú er kominn þangað og er að flytja þangað. Þannig gæti það hugsanlega verið með þessa stofnun, að menn sæju tækifæri í því að hluti af henni eða hún öll, það er ekki vitað á þessari stundu, gæti farið suður eftir.

Hvort það eigi að leita til þeirra sem njóta þjónustunnar, ég átta mig kannski ekki alveg á því en ég tel mjög mikilvægt að byggja á því hvernig þjónustan gengur fyrir sig og hvernig hún er mest sótt. Er hún sótt mest í gegnum tölvur eða er hún sótt mest í gegnum það að fólk mæti á staðinn, í fýsískar heimsóknir, eins og maður segir, eða á fundi? Ég þekki það auðvitað ekki alveg nógu vel sjálfur. Það er eitt af því sem nefndin sem fer í málið þarf bara að athuga. Ég segi bara fyrst og fremst að þó að ég hafi ekki viljað tala um útlendingamál per se þá er ég alveg tilbúinn að tala um þá sem þurfa að nýta starfsemi þessara stofnana, sem eru auðvitað mikið til útlendingar. Ég held að hluti af því að færa stofnunina suður eftir sé að færa hana nær þeim sem nýta hana mest. Ætli það séu ekki einhver 95 eða 97% af ferðamönnum sem koma til landsins (Forseti hringir.) sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar.