Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

umboðsmaður sjúklinga.

210. mál
[16:31]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé um mikilvægt mál að ræða fyrir heilbrigðiskerfið, að stofnað verði sérstakt embætti umboðsmanns sjúklinga sem hafi það hlutverk að standa vörð um hagsmuni og réttindi sjúklinga og verði opinber talsmaður þeirra og sinni eftirliti með heilbrigðisþjónustu með tilliti til réttinda sjúklinga. Þetta er mikið réttindamál fyrir sjúklinga og þetta er embætti sem hefur verið skortur á í mörg ár. Má vísa til þess sem kom fram í ræðu hv. þm. Halldóru Mogensen sem flytur málið, og kemur einnig fram í greinargerð, að Kvennalistinn reyndi þrisvar sinnum að flytja mál um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, um trúnaðarmenn sjúklinga, og sama gerði Alþýðuflokkurinn með þingsályktunartillögu um ráðningu sérstaks umboðsmann sjúklinga.

Þetta embætti myndi einnig hafa fræðsluhlutverk, leiðbeinandi fræðsluhlutverk til almennings og líka til heilbrigðisþjónustunnar og spítala í landinu. Mig langar að benda líka á það að í dag hefur Landspítalinn ekki innri endurskoðun, svo ótrúlegt sem það má vera. Þeir hafa ekki innri endurskoðun. Ég veit að umboðsmaður sjúklinga er ekki innri endurskoðandi en það vantar klárlega eftirlitsaðila með heilbrigðiskerfinu. Það vantar innri endurskoðun og það vantar talsmann sjúklinga sem hefur eftirlit með heilbrigðisþjónustu og hefur það hlutverk að hafa eftirlit út frá sjónarmiðum réttinda sjúklinga. Það er grundvallaratriði. Heilbrigðisþjónusta er jú þjónusta við sjúklinga og fólkið í landinu. Þetta er þjónustustarfsemi og þá er mjög mikilvægt að eftirlitinu sinni talsmaður þeirra sem heilbrigðisþjónustan veitir þjónustu til. Það er algjört grundvallaratriði. Þetta hefur sárlega vantað og ég tel að þetta verði mjög gott fyrir heilbrigðisþjónustuna til að bæta starfsemina þar, straumlínulaga hana og gera hana betri, myndi stórlega bæta þjónustuna. Umboðsmaðurinn hefði líka leiðbeinandi fræðsluhlutverk.

Það yrði vissulega kostnaður. Mig grunar að málið hafi ekki náð fram að ganga á sínum tíma, þegar Kvennalistinn flutti mál um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, um trúnaðarmann sjúklinga, og Alþýðuflokkurinn gerði það með þingsályktunartillögu, vegna þess að kostnaðurinn hafi vaxið mönnum í augum. Ég tel, ef málið er skoðað nánar, að kostnaður við svona embætti þurfi ekki að vera mikill. Við erum að tala um einn til tvo starfsmenn, tvo lögfræðinga, lögmenn, sem væru í fullu starfi. Þeir myndu standa vörð um hagsmuni og réttindi sjúklinga, sinna eftirlitshlutverki út frá réttindum sjúklinganna og sinna leiðbeinandi fræðsluhlutverki. Það er mjög kostnaðarsamt fyrir fólk í dag að þurfa að leita til lögfræðinga. Það veigra sér margir við því að leita til lögmanna út af kostnaði. Það er bæði tímafrekt og kostnaðarsamt. Eins og hér kemur fram þá fylgir því aukaálag ofan á veikindi ef sjúklingur lendir í deilumáli við heilbrigðisyfirvöld. Þá er gott að hafa umboðsmann sjúklinga sem tekur utan um sjúklinginn, aðstoðar hann, leiðbeinir honum um réttindi sín og segir honum hver úrlausnarefnin eru. Þá getur hann tekið rökstudda afstöðu til þess hvað hann gerir í málinu, farið jafnvel með það til landlæknis sem er hlutlaus úrskurðaraðili. Umboðsmaður sjúklinga myndi ekki ganga inn á störf landlæknis heldur er þetta viðbót. Þetta er viðbót við heilbrigðisþjónustu, með þessu er verið að bæta heilbrigðisþjónustuna. Maður hefur heyrt margar sorgarsögur sjúklinga sem hafa lent í áföllum eftir að hafa fengið heilbrigðisþjónustu og þá myndast alls konar biturleiki í baráttunni um kerfið og það er mjög mikilvægt að fólk geti leitað til aðila eins og hér er verið að tala um. Samfélagslegur kostnaður myndi vera minni á endanum en án embættisins.

Vissulega yrði þetta mjög lítið embætti og lítil stofnun og ég veit að Ríkisendurskoðun hefur fjallað um þessi örembætti á Íslandi en við lifum nú í litlu samfélagi og það að hafa einn til tvo starfsmenn við embætti umboðsmanns sjúklinga yrði ekki dýrt út af smæðinni, síður en svo.

Ég vona að málið fái mjög góða umfjöllun í nefnd og fái umsagnir, það verður spennandi að sjá allar umsagnir eins og framsögumaður sagði áðan. Ég tel að þetta sé eitt af þeim málum sem við í stjórnarandstöðunni ættum að geta fengið í gegn án andstöðu stjórnarþingmanna.