153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[14:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Leysir þetta frumvarp vandann? Þetta frumvarp gerir málsmeðferð skilvirka, miklu skilvirkari en hún hefur verið. Um það þarf ekki að efast. Það eru líka ákvæði í þessu frumvarpi sem liðka mjög fyrir því að vinna með umsækjendur sem hlotið hafa synjun og eiga að fara úr landi, eru hér í raun í ólögmætri dvöl. Það eru teknir út þeir hvatar sem eru í núverandi löggjöf um að láta reyna á þá fresti sem eru til staðar til að fá mál sitt tekið fyrir að nýju. Að því leyti tel ég að þetta leysi mikinn vanda. Hitt er svo annað mál að vandinn sem við glímum við akkúrat í dag er auðvitað af öðrum toga, má segja, þegar kemur sérstaklega að íbúum Úkraínu sem hingað koma og við erum að glíma við það. Þetta leysir ekki þau mál enda erum við sameinuð í því að reyna að taka á móti því fólki með sem bestum hætti. En ef við værum í eðlilegu ástandi þá hefði þetta frumvarp veruleg áhrif á þróun mála.