153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það eru vissulega allir þingmenn, held ég, sammála um að taka við flóttafólki frá Úkraínu á þann hátt sem gert er, enda gilda um það sérstakar reglur og ekki bara hér á landi heldur víða annars staðar. Vandinn var hins vegar kominn fram og var orðinn augljós löngu áður en að Úkraínustríðið hófst, þegar Ísland var komið með langmestu ásókn af Norðurlöndunum hlutfallslega í að fá hér hæli. Leysir þetta mál þann vanda? Nei, það gerir það ekki. Það leysir ekki heldur þann vanda sem felst í því að hæstv. ráðherra og reyndar aðrir ráðherrar og stjórnmálamenn yfir höfuð eru búnir að gefa frá sér allt of mikið vald til að taka ákvarðanir. Hvað hefur hæstv. ráðherra yfir höfuð um þetta að segja ef einhver nefnd úti í bæ, nefnd ókjörinna fulltrúa, getur ákveðið það hvaða hópar frá heilu löndunum koma til landsins? Hvað ef sú nefnd ákveður að það sama gildi um Pakistan, Bangladess, El Salvador, Hondúras, Kólumbíu og önnur lönd og gildir nú um Venesúela? (Forseti hringir.) Ráðherrann mun ekki hafa nein svör við því þótt það geti gjörbreytt aðstæðum hér og möguleikum okkar á að hjálpa þeim sem eru í mestri neyð.