153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:10]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið sem var svolítið sérstakt, þá sé viðkomandi einfaldlega farinn úr landi eða ætti að vera farinn úr landi. Þetta ákvæði fjallar um það þegar einstaklingur er ekki farinn úr landi. Þá spyr ég: Hvaða úrræði eru þá? Hér er væntanlega verið að tala um þvingaða brottför og það kemur alltaf í fjölmiðlum þegar það er þvinguð brottför. Ég spurði að þessu í Noregi, NOAS, óháð samtök sem eru áhugasöm um rétt og virðingu fyrir flóttamönnum, og þau sögðu: Það er bara hluti af ferlinu. En ég get ekki séð neins staðar í lögunum hvernig þvingaðri brottför er háttað, annað en að viðkomandi fái ekki réttindi. Hvað svo? Ef ráðherra gæti fjallað aðeins um þvingaða brottför, hvernig hún er framkvæmd, hvað gerist þar? En mig langar að spyrja ráðherrann sérstaklega: Er með þessu frumvarpi tryggt að málsmeðferð hælisleitenda hér á landi um alþjóðlega vernd sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna? Erum við með einhverjar sérreglur? Erum við með lægri þröskulda, hærri þröskulda? Hvar erum við stödd varðandi það ferli að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar okkar? (Forseti hringir.) Annað varðandi flóttamenn frá Venesúela. Við fórum í mjög góða heimsókn í allsherjar- og menntamálanefnd og þar kemur fram samkvæmt súluriti, ég lagði þetta saman, að 720 hælisleitendur hafa komið frá Venesúela. (Forseti hringir.) Er það virkilega rétt að þetta sé bara undir úrskurðarnefndinni komið, ekki samkvæmt lögum eða stjórnvöldum sem ákváðu að það séu að koma 720 flóttamenn frá Venesúela? Er það bara dregið upp úr hattinum hjá úrskurðarnefndinni?