153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir spurningar hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur. Hérna var verið að spyrja um hvernig þetta frumvarp kæmi í veg fyrir hagnýtingu glæpamanna á flóttafólki, mjög eðlileg spurning þar sem það hefur verið formáli þessa máls að það sé svo mikill vandi hvernig glæpafólk er búið að vera að misnota hælisleitendakerfið á Íslandi, hælisleitendur, og heimti af þeim pening. Í öllum formála að framlagningu þessa frumvarps þá átti þetta frumvarp að leysa það og því er mjög eðlilegt að spyrja þeirrar spurningar. Þegar þingmenn koma hérna og spyrja ráðherra spurninga þá skiptir það ekki öllu máli í hvaða samhengi það er. Það gerir það bara alls ekki. Andsvör eru á þann hátt að það þarf ekki einu sinni að vera spurning. Það er bara athugasemd. Ráðherra er að sjálfsögðu frjálst að hunsa það eins og honum sýnist. En það er bara slæmur bragur á því.