153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:25]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ítreka að ég tek undir beiðni hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur um að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra mæti hér í salinn og ég vona einlæglega að hann verði við þeirri beiðni og hef trú á því. Í ljósi þess sem hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir talaði um hér áðan, að hvorki í þessu frumvarpi né í framsöguræðu hæstv. dómsmálaráðherra hafi í rauninni verið imprað á þeim ummælum sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir krafðist svara við, þá vil ég annars vegar vekja athygli á því að í frumvarpinu er mikið talað um að hingað hafi komið aukinn fjöldi flóttafólks á undanförnum árum og því þurfi að gera ákveðnar breytingar. Af því má draga þá ályktun að frumvarpinu sé ætlað einhvern veginn að breyta því. Þar með verður fyrri spurning hv. þingmanns í fullkomnu samræmi við greinargerð með frumvarpinu. Hins vegar langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þm. Diljár Mistar Einarsdóttur hvort hún álíti þau rök sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur fært í allri umræðu um þetta mál á undanförnum vikum vera umræðunni hér í þingsal alfarið óviðkomandi. (Forseti hringir.) Þetta eru tvö þau helstu atriði sem hann hefur nánast eingöngu nefnt sem ástæðuna fyrir þessu frumvarpi og þessum tillögum.