153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hef sagt það opinberlega að ég bíð spennt eftir að ræða það frumvarp sem hæstv. ráðherra var hér að mæla fyrir vegna þess að mér finnst það mikilvægt. Það tekur á ýmsum þáttum en það tekur ekki á öllum þáttum er lúta að því risastóra verkefni sem er að bjóða fólk sem er að leita eftir vernd velkomið. (Gripið fram í.) Það er alveg ljóst að það eru ýmsir þættir sem liggja hér undir. Já, já, við getum beðið aðra ráðherra að koma, en eigum við nokkuð að stoppa þar? Eigum við kannski líka að biðja hæstv. fjármálaráðherra að vera hérna vegna þess að hér er fjármagn undir og biðja menntamálaráðherra að vera hérna og barnamálaráðherra? Mér finnst það risastórt mál. En við erum auðvitað með ákveðna verkaskiptingu í Stjórnarráðinu og til að takast á við stór verkefni þurfum við stundum að búta þau niður. Það verkefni sem bíður okkar hér í dag er þetta ágæta frumvarp. Eigum við kannski bara að ræða það? En auðvitað er hægt að ræða rosalega stóra þætti þegar kemur að útlendingamálum almennt og ég sé að hv. þingmenn eru æstir í að ræða fundarstjórn forseta og hvað ég hef hér fram að færa. En ég myndi óska þess að við færum í að ræða frumvarpið sjálft því að við þurfum að takast á við það verkefni og ég vona svo sannarlega að við náum meiri árangri í því verkefni núna á þessu þingi en á síðustu þingum.