153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:29]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Af því að það var sérstaklega óskað eftir því að ég svaraði ákveðinni spurningu hv. þingmanns þá hlakka ég til að eiga orðastað um málið eins og það er statt hér í þinginu og hlusta á þær umræður sem hér munu eiga sér stað. Ástæða þess að ég fór í pontu var ekki sú að ég væri sjálf að gera athugasemd við þær umræður sem hér hafa þegar farið fram heldur einmitt orð hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur þar sem hún gerði athugasemd við það að hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningum hennar, af því að það væri ákveðið verklag hérna, ráðherra viðhefði framsögu og síðan kæmu þingmenn upp og fengju tækifæri til að spyrja spurninga. Þess vegna kom ég upp og var að furða mig á því hvort hv. þingmaður hefði e.t.v. ekki verið að beina spurningum að hæstv. ráðherra sem vörðuðu málið sérstaklega. Það er vissulega hægt að ræða ýmislegt sem hæstv. ráðherra hefur rætt í spjallþáttum eða skrifað um undanfarna daga, síðast sýndist mér um björgunarmál. En það er bara ekki það sem er til umræðu í dag.