153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:39]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hér kvaddi sér hljóðs hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir og hvatti til efnislegrar umræðu. Ég tek heils hugar undir þau orð að við eigum að hafa efnislega umræðu um þetta mál, algjörlega, og ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Er með frumvarpinu tryggt að málsmeðferð hælisleitenda hér á landi um alþjóðlega vernd sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna eða ekki? Erum við að veita meiri rétt eða erum við að veita minni rétt? Ég hef haft það á tilfinningunni að við höfum haft sérreglur þar sem við erum að fá aukinn fjölda af því við erum með sérreglur, með lægri þröskulda. Ég get ekki séð nægjanlega af þessu frumvarpi sem er hér til efnismeðferðar, eða verður í umræðum hér á eftir til efnismeðferðar, að þetta frumvarp nái markmiðum sínum. Aðalmálið er að kærunefnd útlendingamála ákveður það að við erum að taka á móti fjölda fólks frá Venesúela, 720 manns eru þegar komnir í ár. Það hefur ekkert með okkur að gera. Áhrif frumvarpsins eiga að auka samræmi við löggjöf og framkvæmd þessara mála við önnur Norðurlönd, auka skilvirkni og gæði. Ég tel að þessi markmið frumvarpsins náist ekki.