153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Áður en ég svara þessu með skotgrafirnar þá er það fyrst og fremst þjónustuskerðingin sem við getum ekki sætt okkur við, sem ég talaði um áðan í minni ræðu, og síðan þessir tímafrestir sem munu leiða til þess að börn verði hugsanlega send til Grikklands. En af hverju tala ég um þetta væri þegar komið ofan í skotgrafir? Jú, það er vegna þess að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra, hafa tekist á með nokkuð þungum vopnum síðustu daga. Þannig að bara þar, innan ríkisstjórnarinnar, er greinilega mikill ágreiningur, fyrir utan það sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar og tók langan tíma, fimm eða tíu mínútur, í að fara aðeins yfir, þ.e. hvernig formenn allra stjórnmálaflokka, nema formaður Sjálfstæðisflokksins, hétu því haustið 2017 að fyrsta verk nýs þings yrði endurskoðun útlendingalaga og að allir flokkar kæmu að samningu þess.