153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:10]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er mín einbeitta skoðun að þjónustusvipting þessa fámenna hóps, ef við segjum að það myndi verða, muni bara leiða miklu meiri kostnað yfir okkur og samfélagið heldur en að sýna aðeins meiri mannúð, plús það að þetta er mjög ruddaleg aðgerð. Hv. þingmaður hefur sennilega eitthvað tekið skakkt eftir, eða ég flutt mál mitt óskýrt, vegna þess að í upphafi nefndi ég að umræðan um skautun og skotgrafir hefði einhvern veginn ekkert síður verið hafin af hendi hæstv. ráðherra sem talaði þetta upp alveg frá upphafi í mörgum útvarpsþáttum. Þetta er nú allt til á netinu þannig að hægt er að fletta því upp.