153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:00]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, ég kannast við að það séu fleiri frá Erítreu að koma til Danmerkur og Noregs og ég efast ekki um að þeir séu líka að koma til Svíþjóðar. Ég veit að Svíar tóku við töluverðum fjölda fólks frá Erítreu. Það er alveg rétt að ástæðan fyrir því að við erum að fá fleiri sem koma hingað frekar en til annarra ríkja — og ég nefndi það áðan — getur verið beint flug og annað slíkt. Grundvallaratriðið er það að við erum núna með 729 umsóknir í vinnslu þegar þær ættu undir venjulegum kringumstæðum að vera 100 eða 150. Við þurfum að taka mið af okkar samfélagi. Við erum 370.000 manns. Við þurfum að geta tekið vel á móti þessu fólki. Ég get tekið dæmi um Hafnarfjörð. Þeir hafa kvartað yfir því að þeir séu að taka á móti allt of mörgu fólki. Við heyrðum í morgun að það væri fráflæðisvandi af móttökustöðinni eða búsetuúrræðunum sem eru tímabundin í upphafi. Það er ákveðið vandamál. Við erum ekkert að fá allt samfélagið með okkur í þetta, ekki sveitarfélögin eða önnur ríki. (Forseti hringir.) Ég hef nefnt 720 frá Venesúela. Ég er ekkert að segja að við eigum ekki að taka á móti þeim. Við eigum að taka á móti þeim (Forseti hringir.) ef þau hafa búið við ástæðuríkan ótta. Það eru margir sem hafa búið í kommúnistaríkjum og alræðisríkjum sem falla ekki undir skilgreininguna á flóttamönnum.