153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður að bregðast hér við nokkrum fullyrðingum. Við getum verið sammála um það, ég og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson, að innviðir eru komnir að þolmörkum og við því verður að bregðast. Frumvarpið tekur á því að auka skilvirkni og mannúð í meðferð mála. Það er ekki hægt að deila um það. Þrátt fyrir að það hafi verið kallað ógeðsfrumvarpið af samflokksmönnum hans í Pírötum koma þeir upp í röðum og tala um að það hafi engin áhrif. Það eru 89,3 milljónir manna á flótta í heiminum. Þar af eru 4,6 milljónir í leit að vernd og 53 milljónir eru á flótta í eigin landi, svo tölurnar séu nú réttar en ekki var farið alveg rétt með þær áðan. Svo er eitthvert rugl um að ég hafi talað um að allir séu glæpamenn sem hingað koma á flótta. Það er auðvitað bara alrangt, en það er ljóst að það á sér stað skipulögð glæpastarfsemi í tengslum við flóttamenn og það er það sem við þurfum að uppræta eins og aðra skipulagða glæpastarfsemi í þessu landi.

Það er líka slæmt þegar farið er að rugla saman flóttamannakerfi Sameinuðu þjóðanna, samningi okkar sem við erum bundin af í þeim efnum og þetta frumvarp (Forseti hringir.) hreyfir engu við, og því þegar fólk á að sækja hér um dvalarleyfi og atvinnuleyfi í stað þess að koma í gegnum verndarkerfið.