153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:37]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að það sé alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að það sé verið að nýta sér það svolítið að kerfið er að springa vegna þess að við buðum fullt af fólki að koma hingað. Í stað þess að setja fókusinn og peningana í það að bæta innviðina og taka betur á því hvernig við tökum á móti þessu fólki, þá er einblínt á að tala illa um fólk, hitt fólkið sem er að koma hingað. Við verðum að átta okkur á því t.d. varðandi Venesúela, að það eru liðin fimm ár eða svo síðan að flóttamannastraumurinn byrjaði að koma þaðan til annarra ríkja Suður-Ameríku. Það er bara fyrst núna sem þessi hópur er að koma hingað til Evrópu. Við fengum hóp Sýrlendinga eftir stríðið þar 2015 sem byrjaði að koma hingað upp alla Evrópu. Þetta er svipaður hlutur en hann er bara að gerast annars staðar.

Bara til að leiðrétta misskilning sem var hér áðan hjá hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni. (Forseti hringir.) Fólk kemur ekki í gegnum Miami eða Orlando, fólk kemur í gegnum Spán.