153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er gaman að heyra svona útskýringar. Það er alltaf vera að útskýra fyrir okkur hinum þingmönnunum hvernig hlutirnir eiga að virka. En það er nú svo að í 1. umr. er ráðherra að mæta með frumvarp til þingsins og flytja það, er flutningsmaður þess frumvarps. Í þessu frumvarpi á hluti þessa einmitt við málefni félags- og vinnumarkaðsráðherra. Við viljum að hann komi og flytji sinn hluta. Það er bara mjög eðlileg krafa í 1. umr. Í 2. umr. er stundum einnig beðið um viðveru ráðherra en það er frekar á forræði þingsins og nefnda, sem eru þá flutningsmenn nefndarálits o.s.frv., og ráðherra er síður inni í þeim umræðum, en að sjálfsögðu þegar um stórmál er að ræða kemur ráðherra að. 3. umr. er síðan yfirleitt miklu skemmri o.s.frv. En í 1. umr. er það ráðherra að mæta til þingsins og kynna sitt málefni fyrir þinginu. (Forseti hringir.) Þess vegna biðjum við um ráðherra félags- og vinnumarkaðsmála.