153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[19:54]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir þessa ræðu. Við erum ekki sammála um margt en þó erum við sammála um að hæstv. ríkisstjórn sé með öllu úrræðalaus gagnvart þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir við móttöku flóttafólks og erum sammála um að þetta frumvarp leysi ekki á neinn hátt þann vanda sem við stöndum frammi fyrir, bara alls ekki, þvert á móti. Ég hef mjög skamman tíma en þar sem hv. þingmaður nefnir að eitt vandamálið sé að flóttafólk sé, svo ég vitni beint í hv. þingmann, söluvara glæpagengja langar mig til að spyrja hv. þingmann með hvaða hætti hann telur að við gætum leyst það vandamál. Helsta ástæðan fyrir því að flóttafólk er söluvara glæpagengja er sú að það eru engar löglegar leiðir fyrir flóttafólk til þess að koma til Evrópu og sækja um vernd.