153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:41]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú veitti ég því ekki athygli hvort hv. þingmaður hlustaði á alla ræðu mína en ég eyddi drjúgum tíma í byrjun hennar í að gagnrýna hversu veikt frumvarpið væri orðið frá fyrstu framlagningu hér á þingi fyrir fjórum árum. (Gripið fram í.) Mikið rétt. Ég hef metið það sem svo að þetta sé illskárra núna en ekkert. En það er bara hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég kom einmitt inn á það í ræðu minni að ég vonaði að hv. allsherjar- og menntamálanefnd, þar sem við eigum báðir sæti, muni laga frumvarpið. Það sem þarf að gerast í vinnu nefndarinnar er að við einhendum okkur í það verkefni að fjarlægja öll þessi séríslensku ákvæði. Sú afstaða mín liggur alveg fyrir. Ég fór yfir hvernig stuðningur ríkisstjórnarflokkanna virðist vera við þetta mál og ég er því miður hóflega bjartsýnn á að árangur náist í þessari fimmtu framlagningu þannig að við horfum væntanlega til hinnar sjöttu. En þó, eins og ég segi, þetta er skárra en ekkert en mjög fjarri því að vera það sem þarf.